Miðstjórn ASÍ fordæmir ólögmæta hernaðaraðgerð Bandaríkjanna í Venesúela. Aðgerðin felur í sér skýrt brot á alþjóðalögum og ógnar bæði friði í Rómönsku Ameríku og friði um heim allan þar sem stórveldin telja sér nú heimilt að ráðast inn í sjálfstæð og fullvalda ríki eða til að krefjast yfirráðs yfir þeim að hluta eða alveg í þágu eigin efnahagslegra hagsmuna. Alþjóða verkalýðshreyfingin er og hefur ætíð verið öflugasti málsvari vinnandi fólks í þágu lýðræðis og friðar sem leggur grunninn að velferð og mannréttindum hinna vinnandi stétta. Miðstjórn ASÍ tekur því undir yfirlýsingu Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) og Verkalýðssambands Ameríkuríkjanna (TUCA) frá 3. janúar s.l. þar sem hernaðaraðgerð Bandaríkjanna er harðlega mótmælt.
Yfirlýsing ITUC og TUCA
Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) og Verkalýðssamband Ameríkuríkjanna (TUCA) fordæma harðlega þá hernaðaraðgerð ríkisstjórnar Bandaríkjanna sem hrint var í framkvæmdi í dag (3. janúar) á yfirráðasvæði Bólívaríska lýðveldisins Venesúela. Með hliðsjón af alvarleika atburðanna, sem fela í sér loftárásir á mannvirki í Caracas og staðfestingu bandarískra stjórnvalda á brottnámi og mannráni á forsetanum Nicolás Maduro, lýsir alþjóða verkalýðshreyfingin yfir eftirfarandi:
Hernaðaríhlutun fordæmd: Við fordæmum þessa aðgerð sem augljóst brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og grundvallarreglum alþjóðaréttar. Beiting hervalds og innrás inn á yfirráðasvæði fullvalda ríkis er óásættanleg stríðsaðgerð sem stofnar friði og stöðugleika alls þessa heimshluta í hættu.
Vörn fullveldis og sjálfsákvörðunarréttar: Í samræmi við sögulega afstöðu okkar hvað varðar vörn á sjálfstæði þjóða til stuðnings við yfirlýsingar ríkisstjórna þessa heimshluta sem krefjast óskoraðrar virðingar fyrir fullveldi Venesúela, höfnum við öllum tilraunum til stjórnarskipta með valdi eða með erlendri íhlutun. Örlög Venesúela skulu eingöngu ráðast af venesúelsku þjóðinni á lýðræðislegan og friðsamlegan hátt en ekki af heimsvaldastefnu.
Krafa um virðingu fyrir mannréttindum: Við tökum undir tafarlausa kröfu alþjóðasamfélagsins um sönnun lífsmarks, virðingu fyrir líkamlegu öryggi og lausn forsetans Nicolás Maduro og eiginkonu hans, Cilia Flores, sem og allra annarra borgara sem ólöglega hafa verið numin á brott í þessari ólöglegu aðgerð. Núverandi staða þeirra verður að vera alþjóðasamfélaginu ljós án tafar.
Ákall um frið og samræður: Við erum sammála afstöðu ríkisstjórna Brasilíu, Mexíkó og annarra ríkja um að fordæma ofbeldi og hvetja til diplómatískra lausna. Þessi heimshluti verður að haldast sem svæði friðar; við munum ekki leyfa að Rómanska Ameríka verði dregin inn í hernaðarátök vegna heimspólitískra hagsmuna sem ekki endurspegla vilja þjóða okkar.
Sjá heimasíðu ITUC: ITUC and TUCA strongly condemn the US military aggression and violation of Venezuela’s sovereignty. – International Trade Union Confederation