Á dögunum funduðu forsvarsmenn Framsýnar og Bakkavíkur um áform fyrirtækisins um að byggja upp landeldi á Bakka við Húsavík. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bakkavíkur landeldis og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar fóru yfir verkefnið en Framsýn hefur lagt mikla áherslu á að eiga gott samstarf við þá aðila sem sýnt hafa svæðinu áhuga hvað varðar atvinnuuppbyggingu. Bakkavík landeldi ehf., hefur þegar undirritað viljayfirlýsingu vegna lóðar undir hugsanlega landeldisstöð á vegum Bakkavík landeldi ehf. á iðnaðarsvæðinu á Bakka norðan Húsavíkur. Í viljayfirlýsingunni kemur meðal annars fram að Bakkavík landeldi ehf. telur mikil tækifæri fyrir hendi til sjálfbærrar auðlindanýtingar og atvinnusköpunar í Norðurþingi með uppbyggingu landeldisstöðvar fyrir lax á lóðinni. Með því móti verður jafnframt styrkari stoðum skotið undir atvinnulíf og búsetu í Norðurþingi og nágrannabyggðum. Fram hefur komið að um þróunarverkefni sé um að ræða sem taki nokkur ár.