Á aðalfundi Framsýnar í vor var ákveðið að minnast kvennaársins 2025 með gjöf á 5 sætisbekkjum sem komið verði fyrir í núverandi og þáverandi sjávarbyggðum á félagssvæðinu. Fyrsti bekkurinn var vígður formlega á Húsavík á Kvennafrídaginn í haust. Bekknum hefur verið komið fyrir á Stangarbakkanum við verslunina Nettó. Í gær var komið að því að koma fyrir bekkjum á Raufarhöfn og á Kópaskeri. Bekkirnir eru gefnir af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis.
Starfsmenn SSNE og Norðurþings, þau Nanna Steina Höskuldsdóttir og Einar Ingi Einarsson hjálpuðu starfsmönnum Framsýnar við að ganga frá bekknum á Raufarhöfn en þar verður hann við listaverkið Síldarstúlkuna við höfnina. Á Meðfylgjandi mynd má sjá Nönnu og Einar Inga á bekknum ásamt formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna. Nanna og Einar Ingi þökkuðu Framsýn kærlega fyrir gjöfina. Ekki tókst að ganga endanlega frá bekknum á Kópaskeri þar sem finna þarf honum stað svo hann njóti sín sem best. Heimamenn á Kópaskeri tóku að sér að finna viðeigandi stað fyrir bekkinn. Síðan á eftir að koma fyrir bekkjum í Flatey á Skjálfanda og í Túngulendingu á Tjörnesi. Það verður gert við fyrsta tækifæri.
