Agnieszka Szczodrowskavar valin „Jólasveinn ársins 2025“ á lokafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu. Fundurinn fór vel fram að venju og skemmtu fundarmenn sér afar vel undir heimatilbúnum skemmtiatriðum og góðum veitingum frá Gamla bauk.
Hefð er fyrir því að kjósa félagsmann ársins á lokafundi félagsins ár hvert. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn sem fram fór í gærkvöldi. Fundarmönnum bauðst að kjósa þann félagsmann sem þykir hafa skarað fram úr í starfi Framsýnar á árinu. Titilinn „Jólasveinn ársins 2025“ hlaut Agnieszka Szczodrowskafyrir hennar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins og félagsmanna. Sjö félagsmenn fengu tilnefningu til þessara eftirsóttu verðlauna. Agnieszka eða Aga eins og hún er jafnan kölluð hóf störf á Skrifstofu stéttarfélaganna í ársbyrjun 2023. Hennar hlutverk hefur verið að sinna almennum skrifstofustörfum með áherslu á þjónustu við erlenda félagsmenn. Jafnframt því hefur hún komið að vinnustaðaeftirliti og túlkun fyrir stéttarfélögin. Aga hefur verið liðtæk í starfi Framsýnar og tekið þátt í þingum og ráðstefnum á vegum verkalýðshreyfingarinnar sem og málstofum um málefni kvenna af erlendum uppruna. Hvað það varðar hefur hún tekið virkan þátt í kvennaráðstefnum sem haldnar hafa verið á Kvennaári 2025 bæði sem framsögumaður, túlkur og skipuleggjandi. Aga er verðugur fulltrúi erlendra einstaklinga sem hingað hafa komið til starfa. Sem sagt hörkukona og góður félagsmaður í alla staði. Þegar valið fór fram gafst mönnum kostur á að gera grein fyrir atkvæði sínu.
Hér koma nokkur dæmi:
- Hún er frábær starfsmaður og stendur sig sérstaklega vel í þjónustu við félaga í Framsýn.
- Aga hún er mögnuð.
- Hún er góð manneskja, góð fyrirmynd, góður starfsmaður og frábær sendiherra erlends verkafólks á Íslandi.
- Gefandi, skemmtileg og frábær í alla staði. Tekur alltaf brosandi á móti viðskiptavinum Skrifstofu stéttarfélaganna.
- Er eðal kona, dugnaðarforkur, alltaf boðin og búin þegar leitað er til hennar.
- Aga er alltaf svo kát og hress og tekur svo vel á móti manni.
- Ljúf og hjálpsöm.
- Hún er afskaplega jákvæð, dugleg og skemmtileg. Frábær fyrir erlenda félagsmenn.
Aga fékk ekki Óskarinn að gjöf fyrir að vera virkasti félagsmaðurinn 2025 heldur fallegan jólasvein í verðlaun. Framsýn óskar Ögu til hamingju með titilinn.











