Framsýn þakkað fyrir velvilja í garð HSN í Þingeyjarsýslum

Aðalfundur Styrktarfélags HSN í Þingeyjarsýslum var haldinn á dögunum. Þar var farið yfir rekstur félagsins árið 2024 auk þess sem stjórn félagsins afhenti HSN gjafabréf fyrir þeim tækjum sem félagið hefur fjármagnað fyrir stofnunina. Alls styrkti sjóðurinn HSN fyrir um 14,6 milljónir króna árið 2024 og það sem af er þessu ári hefur sjóðurinn fjármagnað tækjakaup fyrir tæplega 20 milljónir.

Tekjur félagsins árið 2024 voru alls 21,2 milljónir en þar vegur mest myndarlegur styrkur frá Framsýn stéttarfélagi upp á 15 milljónir króna. Kvenfélögin í Þingeyjarsýslum styrktu félagið um alls 2,9 milljónir króna en þau hafa verið öflugur bakhjarl Styrktarfélagsins og HSN undanfarin ár. Árgjöld félagsmanna skiluðu um einni milljón króna, sala minningarkorta 640 þúsund krónum og arfleiðslugjöf frá einstaklingum 410 þúsund krónum.

Á fundinum afhenti stjórn félagsins helstu styrktaraðilum sínum þakkarbréf fyrir veittan fjárstuðning og voru alls 19 félagasamtök og fyrirtæki sem veittu þeim viðtöku.

Það er því mikill stuðningur í nærsamfélaginu við uppbyggingu og viðhaldi á hinni öflugu heilbrigðisþjónustu sem tekist hefur að standa vörð um hér í héraði. Enda er hann algjör forsenda fyrir því að hægt er að uppfæra tækjabúnað og fá þannig sérfræðilækna til að sinna þjónustu hér á svæðinu. Það má heldur ekki gleyma því að öflug heilbrigðisþjónusta styður við jákvæða byggðaþróun á svæðinu hvað varðar uppbyggingu atvinnutækifæra og þar með fjölgun íbúa.

Fulltrúar frá Félagi eldri borgara á Húsavík afhenti HSN á Húsavík prjónaða bangsa sem hugsaðir eru sem verðlaun fyrir yngstu kynslóðina eftir heimsókn til læknis eða hjúkrunarfræðings.

Skráðir félagsmenn í Styrktarfélaginu eru um 350 talsins. Full ástæða er til að hvetja fólk að ganga í félagið en árgjaldið er aðeins 3000 krónur. Hægt er að finna skráningareyðublað á Facebooksíðu styrktarfélagsins. https://www.facebook.com/styrktarfelagHSN/?locale=is_IS (Fréttin er að mestu tekin af facebooksíðu Styrktarfélags HSN)

Deila á