Um áramótin 2023/24 tók til starfa ný stofnun matvælaráðuneytisins, Land og skógur, sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar á landsvísu. Ágúst Sigurðsson er forstöðumaður stofnunarinnar sem tekið hefur við hlutverkum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Hugmyndinni um sameiningu stofnanna tveggja hefur verið varpað nokkrum sinnum fram í gegnum tíðina en varð loks að veruleika í júní árið 2023 þegar frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar varð að lögum á Alþingi.
Í ljósi þessa hefur undanfarið verið unnið að því að samræma stofnanasamninga sem gilda fyrir almenna starfsmenn nýrrar stofnunnar og falla undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fh. ríkisjóðs. Innan Framsýnar hafa nokkrir félagsmenn starfað hjá Skógrækt ríkisins á Vöglum, nú Landi og skógi. Starfsgreinasamband Íslands fer fyrir kjaraviðræðunum við ríkið. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, á sæti í samninganefnd sambandsins. Að hans sögn reiknar hann með því að viðræður aðila endi með kjarasamningi á næstu vikum, það er fyrir jólin. Góður gangur sé í viðræðunum.