Samiðn – landssamband iðnfélaga lýsir yfir áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en lokun verksmiðjunnar hefur víðtæk áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Norðurlandi sem og þjóðarbúið allt. Þetta kemur fram í meðfylgjandi ályktun frá sambandinu. Þess má geta að Þingiðn er aðili að Samiðn fyrir sína félagsmenn sem jafnframt fagnar ályktun sambandsins.
Ályktun vegna PCC á Bakka
„Samiðn – landssamband iðnfélaga á Íslandi lýsir yfir áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en lokun verksmiðjunnar hefur víðtæk áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Norðurlandi sem og þjóðarbúið allt.
Samiðn kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málinu með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu.
Rekstrarstöðvun verksmiðjunnar má rekja til ýmissa þátta, s.s. erfiðleika á mörkuðum fyrir kísilmálm og raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs, en þó ekki síst til samkeppni við niðurgreiddan innflutning í skjóli fríverslunarsamnings Íslands við Kína.
Lokun PCC á Bakka er áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi. Hátt í 200 störf tengjast starfsemi verksmiðjunnar auk afleiddra starfa sem telja hundruð til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikið til samfélagsins, en á árinu 2024 varði fyrirtækið 3,7 milljörðum króna í laun, gjöld, skatta og kaup á þjónustu á svæðinu.
Samiðn hvetur stjórnvöld til að taka málið alvarlega og bregðast strax við. Miklir hagsmunir eru í húfi og tryggja þarf starfsemi PCC á Bakka til framtíðar.“