Liðlega tvö þúsund tonn af laxi hafa verið unnin á þessu ári í Silfurstjörnunni, landeldisstöð Samherja fiskeldis ehf. í Öxarfirði sem er afar jákvætt fyrir atvinnulífið á félagssvæði Framsýnar en starfsmenn landeldisstöðvar Samherja eru flestir í Framsýn.
Árið 2023 voru unnin þar tæplega 1800 tonn, sem var hið mesta hér á landi af öllum landeldisstöðvum. Þetta þýðir í raun að nýtt Íslandsmet verður slegið á degi hverjum til áramóta í Öxarfirði.
Allar aðstæður til landeldis og framleiðslu á hágæðaafurðum eru ákjósanlegar í Öxarfirði en Silfurstjarnan nýtir græna orku, jarðvarma og kristaltært borholuvatn til framleiðslunnar. Fiskeldi sem fer fram í kerjum eins og hjá Silfurstjörnunni gefur kost á góðri stjórn á öllum stigum framleiðslunnar.
Starfsfólk Samherja fiskeldis býr yfir mikilli reynslu og faglegri sérhæfingu varðandi alla þætti fiskeldis, enda hefur Samherji komið að landeldi á laxi í yfir tuttugu ár.
Silfurstjarnan hefur gengist undir miklar endurbætur á undanförnum árum. Í síðasta mánuði var því fagnað að framkvæmdum er svo að segja lokið og er framleiðslugeta stöðvarinnar um 3.000 tonn á ári en var áður um 1.800 tonn.
97,3 prósent í hæsta gæðaflokk
Byggð voru ný eldisker sem eru tvöfalt stærri að umfangi en kerin sem fyrir voru. Þá hefur sjótaka verið aukin til muna, sett upp ný hreinsitæki, auk þess sem stoðkerfi og margvíslegur tækjabúnaður hefur verið endurnýjaður. Nýtt seiðahús var tekið í notkun í fyrra og á þessu ári hófst starfsemi í nýju vinnsluhúsi sem er tæknilega vel búið á allan hátt.
(Þessi frétt er að mestu tekin af vef Samherja)