Framsýn stéttarfélag hefur samþykkt að festa kaup á sætisbekkjum á kvennaárinu 2025 sem komið verður fyrir í sjávarbyggðum á félagssvæðinu, Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri. Bekkjum verður jafnframt komið fyrir í Flatey og við Tungulendingu á Tjörnesi, en þaðan var rekin blómleg útgerð og fiskvinnsla á sínum tíma. Bekkirnir eru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis og verður komið fyrir við sjávarsíðuna á þessum stöðum á næstu dögum og vikum í fullu samráði við viðkomandi sveitarfélög. Í heildina er um að ræða 5 sætisbekki. Fyrsti bekkurinn verður afhentur á Kvennafrídaginn, það er á morgun, föstudag kl. 11:00. Sætisbekknum verður komið fyrir á Stangarbakkanum á Húsavík norðan við verslunina Nettó. Að sjálfsögðu eru öll velkomin á athöfnina, reyndar væri ánægjulegt að sjá sem flesta.
