Þungar áhyggjur af atvinnuástandi á Húsavík

Í ályktun ASÍ sem var að berast er lýst yfir miklum áhyggjum af atvinnuástandinu í Þingeyjarsýslum og skorað á stjórnvöld að koma að málinu af fullum krafti. Framsýn og Þingiðn fagna þessum stuðningi. Ályktunin er eftirfarandi:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum miðvikudaginn 15. október:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af atvinnuástandi á Húsavík og nágrenni vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka.

Miðstjórn hvetur stjórnvöld til að bregðast við hið fyrst þannig að unnt verði að hefja rekstur fyrirtækisins á ný. Í því efni skiptir mestu að rekstrarumhverfi PCC verði bætt með beinskeyttum aðgerðum.

Miðstjórn leggur áherslu á að stöðvun reksturs PCC má einkum rekja til erfiðleika á mörkuðum og röskunar þeirra vegna tollastríðs. Þá er samkeppnisstaða gagnvart Kína erfið þar sem verkafólk sem engra réttinda nýtur og býr við ömurleg launakjör og aðbúnað framleiðir ódýran kísilmálm í miklu magni.

Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum. Afleidd störf af starfseminni skipta hundruðum.

Lokun verksmiðjunnar, sem er ein hin fullkomnasta í heiminum, er mikið áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi og alvarlegra áhrifa er þegar tekið að gæta.

Miðstjórn ASÍ ítrekar því ákall sitt til stjórnvalda um að brugðist verði við hið fyrsta þar sem gífurlegir hagsmunir eru í húfi, jafnt fyrir atvinnulíf á Norðurlandi sem þjóðarbúið sjálft.“

Deila á