Byggða- og atvinnumál til umræðu á þingi SGS

Eins og fram hefur komið á síðunni urðu töluverðar umræður um byggða- og atvinnumál á þingi SGS fyrir helgina. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á þinginu:

„10. þing Starfsgreinasambands Íslands skorar á stjórnvöld að standa vörð um landsbyggðina, sem er einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs og samfélags. Landsbyggðin skapar stóran hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar með framleiðslu, útflutningi og nýtingu auðlinda. Gjaldeyristekjur, sem þannig verða til, standa að mestu undir velferðarkerfi Íslendinga. 

Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að eðlilegur hlutur af þeim verðmætum sem landsbyggðin skapar skili sér aftur heim í hérað. Verðmætin verði notuð til:

• að gera íbúum á landsbyggðinni kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í mun meira mæli í heimabyggð. Stórfelldar tækniframfarir hafa orðið sem gera fjarlækningar mögulegar hvar sem fólk býr á landinu og tæknina þarf að nýta mun betur en gert er.

• að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag með stórauknum framlögum vegna ferða- og dvalarkostnaðar sjúklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fjarri heimabyggð. Jafnframt verði komið til móts við aðstandendur sem þurfa að fylgja sjúklingum með þátttöku í kostnaði þeirra. Þá er brýnt að komið verði upp aðgengilegu húsnæði fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra sem þurfa að dvelja í nánd við heilbrigðisstofnanir af heilsufarslegum ástæðum, fjarri heimabyggð.

• uppbyggingar og viðhalds vega, flugvalla og annarra samgangna s.s. á sjó. Þá verði ráðist í frekari jarðgangnagerð. Góðar samgöngur eru forsendan fyrir að byggð og gott mannlíf þrífist sem víðast um landið.  

• eflingar félagslegrar þjónustu og atvinnuuppbyggingar í hinum dreifðu byggðum landsins. • að jafna aðgengi fólks að menntun, ekki síst á framhalds- og háskólastigi. 

• að tryggja aðgengi landsbyggðarinnar að opinberri þjónustu, fjarskiptum og raforku á viðráðanlegu verði til húshitunar á köldum svæðum sem og til atvinnurekstrar. Kallað er eftir því að allir landsmenn sitji við sama borð hvað auðlindirnar varðar og greiði sambærilegt verð fyrir rafmagn, heitt og kalt vatn sem og aðra orkugjafa.

Þá er grundvallaratriði að íbúar landsbyggðarinnar njóti sömu lífsgæða og tækifæra og íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Jafnvægi í byggðaþróun er forsenda samstöðu og samfélagslegrar sáttar í landinu. Í því samhengi hefur SGS þungar áhyggjur af fyrirhugaðri upptöku kílómetragjalds á ökutæki. Með breytingunum er vegið að búsetuskilyrðum á landsbyggðinni, álögur á akstur auknar og hætta á að fyrirtæki fleyti hækkunum beint í verðlag á vörur og flutninga. SGS telur ótækt að stjórnvöld ætli sér í blindni að treysta olíufélögum til að afnema gjöld á eldsneyti á móti kílómetragjaldi og hafi engin áform um að tryggja að slíkt raungerist. 

Starfsgreinasamband Íslands minnir á að án sterkrar landsbyggðar veikist bæði efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Stjórnvöld verða því að tryggja að arðurinn af auðlindum og útflutningi nýtist öllum landsmönnum, ekki síst þeim samfélögum sem skapa verðmætin.“

Deila á