Baráttukveðjur frá  Drífanda og Verkalýðsfélagi Akraness

Á félagsfundi Framsýnar í gær þegar málefni PCC voru til umræðu og atvinnumál almennt á félagssvæðinu voru lesnar upp tvær kveðjur frá stéttarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands, það er annars vegar frá Verkalýðsfélagi Akraness og hins vegar frá Drífanda stéttarfélagi í Vestmannaeyjum. Fundarmenn sáu ástæðu til að klappa fyrir stéttarfélögunum sem vildu með þessu sýna samstöðu með Framsýn sem hefur gert allt til að verja hagsmuni starfsmanna og þar með samfélagið við Skjálfanda. Framsýn vill nota tækifærið og þakka félögunum fyrir kveðjurnar sem það kann vel að meta.

Kæru félagar í Framsýn,

Verkalýðsfélag Akraness vill með þessum orðum lýsa yfir samstöðu með ykkur í þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp vegna uppsagna starfsmanna PCC á Bakka. Við deilum með ykkur djúpum áhyggjum af afleiðingum þessarar ákvörðunar – bæði fyrir fjölmörg störf í nærsamfélaginu og fyrir getu sveitarfélagsins Norðurþings til að sinna sínum lögbundnu skyldum.

Við vitum vel hversu mikilvægt það er fyrir byggðir landsins að hafa öflug gjaldeyrisskapandi fyrirtæki innan sinna svæða. Hér á Akranesi höfum við sjálf séð með eigin augum hve stóran þátt stóriðjan á Grundartanga hefur í því að skapa atvinnuöryggi, gjaldeyristekjur og byggðafestu á Vesturlandi. Reynslan þaðan sýnir svart á hvítu að öflug starfsemi slíkra fyrirtækja er burðarás í atvinnulífi landsbyggðarinnar og samfélaginu öllu. Þess vegna er brýnt að stjórnvöld og Alþingi standi vörð um landsbyggðina. Það verður að vera öllum ljóst að raunverulegar gjaldeyristekjur þjóðarinnar verða til vítt og breitt um landið – ekki síst í byggðum eins og ykkar.

Við fögnum því að Framsýn hafi tekið skýra afstöðu og kallað eftir aðkomu stjórnvalda til að tryggja áframhaldandi starfsemi PCC á Bakka. Ályktun félagsfundar Framsýnar stéttarfélags undirstrikar vel þá ábyrgð sem hvílir á bæði eigendum fyrirtækisins, stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum að mynda breiðfylkingu til að leita lausna þar sem hagsmunir starfsmanna og samfélagsins verða hafðir að leiðarljósi.

Verkalýðsfélag Akraness styður ykkur heilshugar í þessari baráttu og er tilbúið að leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu sem framundan er. Sameinuð getum við þrýst á um að raunhæfar aðgerðir verði gripnar sem tryggi störf, byggðafestu og réttláta skiptingu þeirra verðmæta sem fyrirtækin skapa í samfélaginu.

Með bestu kveðju,

Vilhjálmur Birgisson

formaður

Sæll Aðalsteinn

Hugur okkar í Vestmannaeyjum er hjá félögum okkar á Húsavík. Þessar uppsagnir eru reiðarslag fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem urðu fyrir þeim.

Við sem búum á landsbyggðinni vitum að hvert einasta starf er verðmætt ekki bara fyrir þá sem vinna þau heldur einnig fyrir allt nærsamfélagið.

Við höfðum samband við þig er fréttirnar bárust og það stendur enn það sem við sögðum þá: Ekki hika við að hafa samband ef það er eitthvað sem við getum gert til að aðstoða ykkur í baráttunni. Baráttunni við að halda störfunum í byggðarlaginu og til tryggja afkomu fjölskyldna ykkar og samfélagsins fyrir norðan.

Barátta ykkar er barátta okkar allra.

Skilaðu kveðjum frá okkur á fundinn, hugur okkar er hjá ykkur.

Með baráttukveðjum

Félagar ykkar í Drífanda stéttarfélagi

Deila á