Áhyggjufullir fundarmenn

Framsýn stéttarfélag stóð fyrir félagsfundi í gær um atvinnumál og stöðuna hjá PCC á Bakka sem er mjög alvarleg um þessar mundir. Þá voru lífeyrismál einnig til umræðu enda hefur almennt verkafólk áhyggjur af boðuðum skerðingum stjórnvalda á réttindum fólks í almennu lífeyrissjóðunum. Fundurinn var fjölmennur og greinilegt var að fundarmenn höfðu miklar áhyggjur af stöðunni á Bakka en sérstakir gestir fundarins voru Kári Marís Guðmundsson framkvæmdastjóri PCC og Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmdastjóri Lsj. Stapa. Eftir miklar og góðar umræður um málefni fundarins var samþykkt að álykta um atvinnu- og lífeyrismál. Meðfylgjandi ályktanirnar með fréttinni voru samþykktar samhljóða í lok fundar.

Ályktun
Um málefni PCC á Bakka

„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 30. september 2025, lýsir yfir þungum áhyggjum af atvinnumálum á félagssvæðinu í ljósi þess að PCC á Bakka hefur sagt upp flestum starfsmönnum fyrirtækisins.

Framsýn kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málinu þegar í stað með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu.

Ákvörðun um að stöðva framleiðsluna byggir ekki síst á erfiðleikum á mörkuðum fyrir kísilmálm og raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Þá bætir fríverslunarsamningur Íslands við Kína ekki samkeppnisstöðu PCC við innfluttan málm til frekari vinnslu á Íslandi.    

Áhrifin af lokun PCC eru þegar farin að hafa veruleg áhrif enda um að ræða fjölmennan vinnustað auk þess sem fjöldi undirverktaka hefur treyst á starfsemi fyrirtækisins. Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum, það er fyrir utan afleidd störf sem telja tugi starfa til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikla áherslu á að skipta við verslunar- og þjónustuaðila í nærsamfélaginu auk þess að styðja myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfsemi á Húsavík. Á árinu 2024 varði fyrirtækið 3,7 milljörðum króna í laun, gjöld, skatta og kaup á þjónustu á svæðinu.

Fyrir liggur að rekstrarörðuleikar PCC koma til með að hafa víðtæk áhrif á getu sveitarfélagsins Norðurþings til að standa undir sínum lögbundnu skyldum gangvart íbúum vegna minnkandi tekna af starfsemi fyrirtækisins er tengist ekki síst útsvarstekjum starfsmanna, fasteigna- og hafnargjöldum.

Að mati Framsýnar stéttarfélags kemur ekkert annað til greina en að hlutaðeigandi aðilar  sem tengjast starfseminni á Bakka s.s. eigendur PCC, stjórnvöld, stjórnendur Norðurþings, Landsvirkjun, Landsnet og stéttarfélög starfsmanna myndi breiðfylkingu um að tryggja frekari starfsemi PCC á Bakka til framtíðar öllum til hagsbóta. Stéttarfélögin eru reiðubúin í slíka vinnu enda miklir hagsmunir í húfi.“

Ályktun
Um aðför stjórnvalda að lífeyrissjóðakerfinu

„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 30. september 2025, fordæmir aðför stjórnvalda að lífeyrisréttindum verkafólks með því að afnema framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða frá og með næstu áramótum. Með þessu eru stjórnvöld að brjóta gegn samkomulagi við verkalýðshreyfinguna frá árinu 2005 sem byggir á því að tryggja að réttindaávinnsla sjóðfélaga verði jöfn milli sjóða.

Afnám á jöfnunarframlaginu bitnar sérstaklega á lífeyrissjóðum láglaunafólks þar sem örorkubyrðin er mest. Fólk í erfiðisvinnu, safnar allt að 15% lakari lífeyrisréttindum en sjóðsfélagar annarra lífeyrissjóða, þrátt fyrir að greiða sama iðgjald samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.

Um er að ræða alvarlegt brot á jafnræði enda felur afnámið í sér kerfisbundna mismunun á hendur verkafólki. Slíkt kemur aldrei til greina, auk þess sem það er með öllu óásættanlegt að íslenskt verkafólk sé sett í verri stöðu en aðrir þegar kemur að lífeyrisréttindum.“

Deila á