Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 17. september:
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ítrekar eindregna andstöðu sína við fyrirætlanir stjórnvalda um að fella niður framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða sem hafa mun veruleg áhrif á lífeyrisréttindi í sjóðum verka- og láglaunafólks.
Með þessu rjúfa stjórnvöld einhliða það samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins um jöfnun á örorkubyrði árið 2005 án þess að forsendur þess hafi breyst eða um annað hafi verið samið sem tryggir jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða.
Áformin komu fyrst fram í tíð fyrri ríkisstjórnar og voru sett í samhengi við fjármögnun á endurbótum á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem tóku gildi um síðastliðin mánaðarmót. Verka- og láglaunafólki var þannig gert að greiða fyrir löngu tímabærar kjarabætur til örorkulífeyrisþega með lífeyrisréttindum sínum. Núverandi ríkisstjórn heldur sér við þessi áform og bætir um betur með því að áforma skerðingar á réttindum í atvinnuleysistryggingum til að fjármagna það sem út af stendur vegna breytinganna.
Alþýðusamband Íslands mótmælir þessum áformum harðlega og krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði áform sín um niðurfellingu jöfnunarframlagsins þar til um annað fyrirkomulag hefur verið samið til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna með fullnægjandi hætti.
ASÍ mun aldrei fallast á að verka- og láglaunafólk eitt verði látið bera byrðarnar af misskiptri örorkubyrði með frekari lækkun á lífeyrisréttindum sínum í nafni hagræðingar í ríkisrekstri. „