Takk fyrir okkur

Hermann Aðalsteinsson formaður Skákfélagsins Goðans kom færandi hendi í morgun á Skrifstofu stéttarfélaganna. Tilgangurinn var að færa Framsýn gjöf frá félaginu fyrir stuðninginn í gegnum tíðina en skákfélagið hefur haft aðgengi að fundarsal stéttarfélaganna undir æfingar og skákmót eða eins og segir á heimasíðu skákfélagsins; „Skákfélagið Goðinn hefur hingað til haldið flest öll sín mót og æfingar í fundarsal Framsýnar á Húsavík og vill félagið koma á framfæri sérstökum þökkum til Framsýn stéttarfélags fyrir það. Án þeirrar aðstöðu hefði starf félagsins verið erfitt og alls ekki víst að félagið væri til í dag, ef Framsýn hefði ekki stutt svona vel við bakið á skákfélaginu Goðanum.“

Skáfélagið Goðinn hefur nú gert samkomulag við Norðurþing um afnot af húsnæði svo vitnað sé áfram í heimasíðu félagsins. Húsnæðið sem Goðinn mun fá til afnota er í kjallaranum í norðurhluta Túns að Miðgarði 4 á Húsavík. Suður hluti hússins er í annarri notkun. Tún hýsti hér á árum áður ma. Bifreiðaeftirlit Ríkisins, sýsluskrifstofu og félagsmiðstöð, en hefur ekki verið í notkun að undanförnu. Aðstaðan er með sér inngang og mjög stórt bílastæði er fyrir utan. Sjálfur salurinn er tæplega 50 fermetrar að stærð en þar fyrir utan er forstofa og salerni og svo er forstofa við innganginn á efri hæðinni. Húsið er komið nokkuð til ára sinna en búið er að gera ýmsar lagfæringar í kjallaranum og sjáum við ekki fram á annað en að aðstaðan muni nýtast okkur vel.“

Deila á