Meðal þeirra sem kynntu sér starfsemi Silfurstjörnunnar voru Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags.
„ Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með þessum framkvæmdum, sem sannarlega hafa skilað sér með margvíslegum hætti inn í þingeyska hagkerfið. Öxarfjörður hentar vel til landeldis, hérna er nóg af heitu og köldu vatni og stutt er í tært Atlantshafið. Silfurstjarnan er burðarásinn í atvinnumálum svæðisins og með þessari stækkun er verið að fjárfesta til framtíðar, sem styrkir atvinnulífið og svæðið allt,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri.
Aðalsteinn Árni Baldursson tekur í sama streng. „ Með þessari stækkun eykst starfsöryggi starfsfólks, sem hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Stækkunin er góð vísbending um að hérna starfar fólk með mikla og góða reynslu af fiskeldi, starfsfólkið er auðvitað lykillinn að farsælli starfsemi. Strjálbýlið á Íslandi á víða í vök að verjast og íbúum hefur fækkað. Þessi stækkun Silfurstjörnunnar styrkir og eflir trú fólks á svæðinu, þannig að ég fagna þessari stækkun mjög,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.
Umfjöllun og mynd er tekin af heimasíðu Samherja, þar má jafnframt sjá frekari frétt um málið. https://www.samherji.is/is/frettir/staekkun-silfurstjornunnar-stort-framfaraskref-i-atvinnumalum-oxarfjardar