Formaður SGS spyr, á verkafólk að bera uppi breytingar á örorkukerfinu?

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er formaður Starfsgreinasambands Íslands er harðorður á Facebook er varðar boðaðar breytingar stjórnvalda á lífeyrissjóðakerfinu og skrifar;

Hvernig má það vera að stjórnvöld sem kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð láti þetta viðgangast? Að láta verkafólk í erfiðisvinnu greiða fyrir lagfæringuna á örorkukerfinu? Mikið er það lítilmannlegt.

Stjórnvöld hafa ákveðið að fella niður 10 milljarða framlag sem fimm verkamannalífeyrissjóðir eiga rétt á til jöfnunar á örorkubyrði. Það þýðir ekkert annað en að það verði ellilífeyrisþegar og réttindaávinnsla verkafólks í verkamannalífeyrissjóðum sem bera kostnaðinn við þetta nýja örorkukerfi!

Það er vissulega gott að félagsmálaráðherra hafi náð að láta sólina skína á öryrkja. En hún gerir það með því að skella sólmyrkva yfir ellilífeyrisþega og réttindaávinnslu verkafólks.

Munum það: stór hluti þessarar lagfæringar er fjármagnaður í formi lakari réttinda fyrir ellilífeyrisþega og verkafólk í verkamannalífeyrissjóðum.

Samkvæmt nýjustu tölum greiddi Tryggingastofnun 1,2 milljörðum meira í þessum mánuði en í þeim síðasta. Það jafngildir rúmum 14 milljörðum á ári í aukinn kostnað við nýja örorkukerfið. En af þessum 14 milljörðum hyggjast stjórnvöld láta 10 milljarða koma frá verkafólki og ellilífeyrisþegum í verkamannalífeyrissjóðum, með því að fella niður jöfnunarframlagið. Með öðrum orðum: stærsti hluti lagfæringanna fyrir öryrkja er fjármagnaður með skerðingu á réttindum þeirra sem þegar hafa lakari lífeyri.

Nú þegar eru lífeyrisréttindi í verkamannasjóðunum 15–20% lakari en í sjóðum með litla örorkubyrði. Nú þegar dugar jöfnunarframlag ríkisins, sem nemur 4,6 milljörðum, ekki til. Þegar 10 milljarðarnir hverfa alfarið um næstu áramót verða því enn frekari skerðingar óhjákvæmilegar.

Þessi óréttláta staða bitnar mest á verkafólki sem vinnur erfiðisvinnu – hópi þar sem örorka er margfalt algengari en í öðrum starfshópum. Þeir sem hafa minna í launum, skemmri starfsaldur og lakari lífeyrisréttindi þurfa að bera stærstan hluta kostnaðarins. Það er ekki samtrygging, það er ekki jöfnuður – það er kerfisbundið óréttlæti.

Nú ætla stjórnvöld að frýja sig með því að hefja vinnu við „framtíðarskipulag örorkukerfisins“ innan lífeyrissjóðanna. Verkefni sem getur tekið mörg ár, jafnvel áratugi – og enginn veit hvernig það endar. Því er útilokað að fara í slíka vinnu nema tryggja áframhaldandi framlag til jöfnunar á örorkubyrði.

Er þetta „besta lífeyriskerfi í heimi“? Er þetta „samtrygging“ Nei. Þetta er hvorki réttlæti né jöfnuður – heldur til skammar og rannsóknarefni hvernig stjórnvöld hafa látið þetta óréttlæti viðgangast árum og áratugum saman.

Deila á