Vilja byggja meira íbúðarhúsnæði

Framsýn stóð fyrir fundi í gær með forsvarsmönnum Norðurþings og Bjargs íbúðafélags um frekari uppbyggingu á íbúðum á vegum Bjargs í sveitarfélaginu enda stendur vilji félagsins til þess að Bjarg haldi áfram uppbyggingu  á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu Norðurþingi. Fyrr á þessu ári kom Bjarg að því að byggja sex íbúða raðhús á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framkvæmdin gekk afar vel í alla staði.

Eins og fram hefur komið eru íbúðir Bjargs íbúðafélags fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuði, sl. 24 mánuði miðað við úthlutun.

Fundurinn var vinsamlegur. Áhugi er fyrir því að halda samstarfinu áfram og meta þörfina fyrir frekari uppbyggingu á hagstæðu íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Þá er verið að skipuleggja lóðir fyrir hús sem þessi í sveitarfélaginu.

Í umræðunni um frekari uppbyggingu er horft til þess að haldið verði áfram með byggingu raðhúsa líkt og í Lyngholti 42-52 á Húsavík.  Það er íbúðir í raðhúsi á einni hæð. Um er að ræða 95m2 sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Allar íbúðirnar eru 4ra herbergja (3 svefnherbergi). Fyrsta skóflustunga var tekin í október 2024. Íbúðirnar skiptast í anddyri, þrjú svefnherbergi, baðherbergi og alrými með eldhúsi. Geymslurými innan íbúðar og fataskápur er í hjónaherbergi. Íbúðirnar voru tilbúnar til afhendingar í apríl 2025. 

Eins og fram kemur í fréttinni er eitt af því sem þarf að skoða hvað varðar áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði að meta þörfina fyrir slíkt húsnæði í Norðurþingi og reyndar í Þingeyjarsveit líka. Framsýn efast ekki um að þörfin sé til staðar.

Til þess að eiga möguleika á því að komast inn í íbúðir hjá Bjargi þurfa menn að skrá sig á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi. Fyrstur kemur, fyrstur fær enda standist viðkomandi skilmála Bjargs. Samhliða því að skrá sig á biðlistann þurfa menn að greiða ákveðið gjald nú, kr. 1500,- á ári vilji menn vera á biðlistanum. Skorað er á áhugasama að skrá sig sem fyrst á listann, þannig er hægt verði að átta sig betur á þörfinni á hentugu húsnæði fyrir tekjulága í Þingeyjarsýslum.

Hér er slóðin inn á heimasíðu Bjargs íbúðafélags https://www.bjargibudafelag.is/

Deila á