Framsýn boðaði fulltrúa PCC og Norðurþings til fundar eftir hádegi í dag. Tilgangur fundarins var að fara yfir stöðuna hvað varðar rekstur og framtíðarhorfur í rekstri PCC. Ekkert nýtt kom fram á fundinum, áfram verður unnið að því að finna leiðir svo hægt verði að enduræsa opna verksmiðunnar sem fyrst. Um 40 starfsmenn eru við störf í verksmiðjunni um þessar mundir. Þá eru tollamálin óljós hvað varðar útflutning á kísilmálmi til Evrópu og annarra viðskiptalanda. Framsýn hefur í samtölum við stjórnendur fyrirtækisins og stjórnvöld lagt mikla áherslu á að aðilar málsins sem og Landsvirkjun/Landsnet sameinist um að finna leið út úr vandanum enda PCC afar mikilvægt fyrirtæki fyrir samfélagið hér norðan heiða auk þess að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Til viðbótar má geta þess að Framsýn hefur kallað eftir því að þingmenn kjördæmisins verði kallaðir til fundar við stéttarfélögin og Norðurþing til að ræða stöðuna sem vissulega er alvarleg enda engin framleiðsla í gangi hjá fyrirtækinu um þessar mundir.
