Þú tapar réttindum með því að vinna svart

Dæmi eru um að atvinnurekendur hafi snúið sér til Skrifstofu stéttarfélaganna í sumar vegna óánægju með samkeppnisaðila í ferðaþjónustu sem bjóða starfsmönnum að vinna svart komi þeir til starfa hjá þeim. Sérstaklega á þetta við um smærri aðila í ferðaþjónustu sem bjóða upp á gistiþjónustu og eru í samkeppni við þá atvinnurekendur sem virða kjarasamninga og lög. Eðlilega eru þeir afar óánægðir með þennan veruleika enda ekki auðvelt að keppa við svarta atvinnustarfsemi en fyrirtækin hafa verið að missa frá sér starfsmenn sem hafa látið glepjast og ráðið sig til fyrirtækja sem virða ekki almennar leikreglur á vinnumarkaði. Starfsmenn sem gera sér greinilega ekki grein fyrir því, að vinni þeir svart, eru þeir ótryggðir við sín störf. Vissulega á ekki að þurfa að taka fram að það er ólöglegt með öllu að fyrirtæki bjóði starfsmönnum að vinna svart, þeim standi ekki annað til boða.

Skrifstofa stéttarfélaganna hefur hvatt þá fyrirtækjaeigendur í ferðaþjónustu, sem leitað hafa til félaganna, að setja sig í samband við Skattinn og koma ábendingum sínum um svarta atvinnustarfsemi á framfæri við stofnunina enda um lögbrot að ræða sem skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja. Það er það eina sem dugar gagnvart svona óheiðarlegri starfsemi enda Skattinum ætlað að fylgjast með því að einstaklingar sem fyrirtæki greiði skatta til samfélagsins samkvæmt fyrirliggjandi lögum og reglum.

Þá er rétt að taka fram að félagsmenn stéttarfélaganna sem verða uppvísir að því að vinna svart missa réttindi til styrkja hjá félögunum s.s. námsstyrkja og styrkja úr sjúkrasjóðum félaganna. Það á einnig við um almenna þjónustu á vegum félaganna, lögfræðiþjónustu og aðgengi að orlofsíbúðum.

Deila á