Sumarferð stéttarfélaganna á Flateyjardal

Stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur stóðu fyrir sumarferð á Flateyjardal  laugardaginn 9. ágúst fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Ferðin var fullsetin og tókst hún í alla staði mjög vel, þótt veðurútlit hafi verið nokkuð tvísýnt fyrir daginn. Hópurinn lagði upp frá Húsavík í þokusúld og norðan nepju snemma morguns og var í öruggum höndum Andra Rúnarssonar bílstjóra hjá Fjallasýn, sem sá til þess að vel færi um farþega. 

Dumbungurinn í morgunsárið kom ekki að sök, það var sól í hverju hjarta sem auðvitað hafði áhrif enda birti upp þegar leið á morguninn. Í Fnjóskadalnum bættist fararstjórinn, Ósk Helgadóttir í hópinn og leiddi hún gestina um eyðibyggðina nyrst í Fnjóskadal, Flateyjardalsheiði og Flateyjardal og fræddi þá um sitthvað er tengist sögunni og búsetu þar ytra. Á Brettingsstöðum hittum við fyrir Bjart Aðalbjörnsson, ungan Vopnfirðing af kyni Brettinga, sem staddur var heima á ættaróðalinu. Bjartur rölti með okkur yfir í kirkjugarðinn og fór yfir sögu Brettingsstaðakirkju, tengsl byggðarlagana við ysta sæ og flutning kirkjunnar milli lands og eyjar.  Eins og ævinlega í sumarferðum stéttarfélaganna er boðið upp á grill og léttar veitingar og nýtti hópurinn sér frábæra aðstöðu í skála Ferðafélags Húsavíkur að Hofi.  Það voru  Aðalsteinn Árni, Jónas Kristjánsson og Margrét Bjartmars sem stjórnuðu aðgerðum við grillið og sáu til þess að enginn færi svangur heim. Undu menn sér lengi á dalnum fagra við söng og gleði í blíðviðrinu.

Ferðin var afar vel heppnuð og full ástæða er til að þakka Fjallasýn og gestum stéttarfélaganna fyrir ánægjulega ferð sem í alla staði var til mikillar fyrirmyndar. Þá skemmdi ekki fyrir að nokkrir í ferðinni höfðu sterk tengsl til dalsins fagra við Skjálfanda enda komin af fólki sem þar bjó um tíma. Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni.

Deila á