Framsýn hefur kallað eftir upplýsingum frá Samherja um áform fyrirtækisins varðandi frekari rekstur fiskþurrkunar að Laugum í Reykjadal, um er að ræða fjölmennan vinnustað. Vitað er að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fylgist jafnframt grannt með þróun mála enda miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélagið. Eðlilega hafa starfsmenn fyrirtækisins áhyggjur af stöðunni enda störf þeirra undir. Fyrir liggur að auknar kröfur hafa verið gerðar til mengunarvara og vöktunar en vinnslan er á viðkvæmu svæði. Ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar aðgerðir til að bæta úr hvað mengunarvarnir varðar. Framsýn treystir því að Samherji leiti allra leiða til að tryggja reksturinn til framtíðar. Framsýn mun fylgja málinu eftir en starfsemi fyrirtækisins liggur niðri um þessar mundir vegna sumarleyfa starfsmanna.
