Félagsmaður Framsýnar lagði VHE í héraðsdómi

Fyrr á þessu ári leitaði félagsmaður Framsýnar sem starfað hefur hjá VHE í Hafnarfirði til félagsins þar sem honum var sagt upp störfum fyrirvaralaust og gert að yfirgefa vinnustaðinn án launa á uppsagnarfresti. Taldi starfsmaðurinn brotið á sínum kjarasamningsbundnu réttindum. Framsýn tók við boltanum og mótmælti þessum vinnubrögðum fyrirtækisins harðlega. VHE neitaði að verða við kröfu Framsýnar um að greiða starfsmanninum laun á uppsagnarfrestinum, en Framsýn lagði mikla áherslu á að ljúka málinu með sátt. Í ljósi þess að lítið fór fyrir samningsvilja hjá fyrirtækinu óskaði Framsýn eftir aðkomu lögmanns félagsins að málinu. Því miður skilaði það ekki tilætluðum árangri, það er að ljúka málinu, án þess að fara með það fyrir dómstóla. Lögmaðurinn höfðaði því mál á hendur VHE fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Til að gera langa sögu stutta þá vann félagsmaðurinn málið. Fyrirtækinu var gert að greiða honum 1.735.254 krónur í vangreidd laun, 1.200.000 krónur í miskabætur, dráttarvexti og 2.232.000 krónur í málskostnað til Framsýnar. VHE hefði því betur samið strax í stað þess að ráðast í þessa eyðimerkurgöngu með tilheyrandi kostnaði. Rétt er að taka fram að VHE hefur 4 vikur til að ákveða hvort fyrirtækið áfrýi niðurstöðunni til Landsréttar. (Myndin tengist ekki fréttinni)

Deila á