Leiðtogar framtíðarinnar

Ungliðarnir Ingimar Knútsson og Arnór Elí Víðisson, sem báðir eru virkir í starfi Framsýnar, sátu nýlega námskeið sem ætlað er ungum og upprennandi leiðtogum. Námskeiðið var á vegum Alþýðusambands Íslands í leiðtogahæfni innan verkalýðshreyfingarinnar og nefndist „Ungir Leiðtogar.“ Námskeiðinu var ætlað að undirbúa unga þátttakendur í verkalýðshreyfingunni fyrir störf og leiðtogamennsku innan hreyfingarinnar. 

Námskeiðið var byggt upp sem þrjár lotur, staðlota í höfuðstöðvum ASÍ í Reykjavík þar sem farið var yfir starf verkalýðshreyfingarinnar og hvað það þýðir að vera leiðtogi á þessum vettvangi. 

Lota númer tvö fór fram í gegnum teams í formi fjarfunda þar sem haldið var áfram að fjalla um verkalýðshreyfinguna og undirbúningur fyrir lokalotuna í Belgíu. 

Í Belgíuferðinni var farið í heimsóknir til ETUC, ITUC og EFTA þar sem ungu leiðtogarnir fengu kynningu á helstu áherslumálum verkalýðshreyfingarinnar bæði á evrópskum og alþjóðlegum grundvelli. 

Að sögn Arnórs og Ingimars var námskeiðið í heildina mjög fræðandi og skemmtilegt. Með þeim á námskeiðinu voru ungir leiðtogar frá öðrum aðildarfélögum Alþýðusambandsins eða í heildina 13 þátttakendur. Framsýn þakkar þeim félögum fyrir að hafa tekið þátt í námskeiðinu fh. félagsins enda markmiðið að fá ungt fólk til starfa í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum Framsýnar.

Arnór Elí er trúnaðarmaður hjá Norðurþingi en þessi mynd er tekin eftir að hópur trúnaðarmanna innan stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafði lokið tveggja daga námskeiði, þar á meðal hann. Forsíðumyndin er hins vegar af Ingimari sem starfar sem trúnaðarmaður hjá PCC á Bakka.

Deila á