Fiskifélagi Íslands var formlega slitið á aðalfundi félagsins í Reykjavík þann 24. júní síðastliðinn. Fundurinn var haldinn á Hilton Reykjavik Nordica.
Fiskifélagið á sér merka sögu sem er samofin sögu íslensks sjávarútvegs á 20. öld. Félagið var stofnað 20. febrúar 1911 með það að markmiðiði að efla fiskveiðar Íslendinga. Félaginu voru ætluð margþáttuð verkefni; aðfylgjast með tækninýjungum í veiðum og vinnslu, efla vöruvöndun og miðlun þekkingar til sjómanna, landvinnslufólks og almennings; bæta öryggi sjómanna, styrkja efnilega einstaklinga til menntunar, rannsaka fiskistofna og standa almennt vörð um hagsmuni þeirra sem áttu sitt undir sjávarútvegi.
Innan félagsins störfuðu Fiskifélagsdeildir sem staðsettar voru víðsvegar um landið. Deildirnar völdu fulltrúa á Fiskiþing félagsins sem alla jafna stóðu í nokkra daga í senn, en þingin voru mikilvægur þáttur í starfsemi Fiskifélagsins í áratugi. Á þingunum voru rædd málefni sjávarútvegsins og ályktanir samþykktar sem sendar voru stjórnvöldum. Fyrsta Fiskiþingið var haldið 1913.
Eitt af fyrstu verkum félagsins var að álykta um landhelgismál og þörf á varðskipi til að fylgjast með veiðum erlendra togara. Fram að seinna stríði beitti félagið sér í vita- og hafnamálum, kom að stofnun Slysavarnafélags Íslands ásamt Skipstjórafélaginu Öldunni og setti á fót svokölluð mótoristanámskeið sem voru einn veigamesti þátturinn í starfsemi félagsins fyrir stríð. Félagið kom sér upp vélasal og sótti fjöldi manns þessi námskeið um meðferð skipsvéla en félagið kenndi einnig stýrimannafræði og siglingafræði og hélt sjóvinnunámskeið á tímabili. Mótoristanámskeiðin voru á höndum félagsins allt til 1966 þegar þau voru flutt inn í Vélskóla Íslands.
Fiskifélagið bæði réð til sín og styrkti einstaklinga til náms og komu sumir þeirra síðar meir til starfa hjá félaginu. Þetta voru vélfræðingar, fiskifræðingar, fiskiðnaðarfræðingar osfrv. Meðal þeirra var nýútskrifaður fiskifræðingur að nafni Árni Friðriksson.Árni stundaði rannsóknir hjá félaginu 1933 til 1938 þegar atvinnudeild Háskóla Íslands var stofnuð og hann hófþar störf Fiskifélagið sett einnig á fót Rannsóknastofu Fiskifélagsins sem árið 1965 varð að Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins og enn síðar hluti af Matís.
Árið 1933 flutti Fiskifélagið í eigið húsnæði sem það hafði reist á hornlóð neðst í Arnarhvolstúni (Ingólfsstræti 1).
Á þessum árum var einnig lagður grunnurinn að þeirri starfsemi sem átti eftir að verða ein viðamesta starfsemi félagsins en það var söfnun upplýsinga og gagna fyrir stjórnvöld. Árið 1925 fól Alþingi Fiskifélaginu að safna aflaskýrslum. Félagið gaf út Útveg í áratugi en þar mátti finna tölulegar upplýsingar um sjávarútveginn. Félagið gaf einnig út tímaritið Ægi og fjöldan allan af fræðsluritum og kennslubókum. Á stríðsárunum fékk félagið fleiri opinber verkefni, til að mynda utanumhald á lánveitingum ríkisins til greinarinnar og ýmsum sjóðum sem komið var á fót. Þónokkur fjöldi starfsmanna var því hjá Fiskifélaginu sem sinnti þeim verkefnum.
Fiskifélaginu tókst hins vegar aldrei að verða sú breiðfylking fyrir hagsmuni sjávarútvegsins eins og upphaflegt markmið hafði verið með stofnun þess. Á árunum eftir stríð voru sjómannafélögin mörg, auk útgerðamannafélaga og sölufélaga sem öll störfuðu hvert í sínu lagi að sínum málefnum.
Félagið hélt áfram að halda utan um gögn og skýrslur fyrir hið opinbera og rekstur sjóða. Meðal þeirra verkefna má nefna vinnslu á svörumvið fyrirspurnum frá hinu opinbera, umsagnir um lagasetningar ogupplýsingar til alþjóðastofnana. Á sjöunda og áttunda áratugnum tók félagið virkan þátt í alþjóðasamstarfi er varðaði sjávarútveginn, fulltrúar þess sátu í íslenskum sendinefndum sem sóttu hafréttarráðstefnur í tengslum við útfærslu lögsögunnar, fundi hjá Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC), Alþjóðahafrannsóknaráðinu og ráðstefnur Mavæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO). Tæknideild var stofnuð innan félagsins sem hélt námskeið um nýjungar í skipasmíðum og veiðarfæratækni, ásamt því að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi nýsmíðar skipa og starfaði hún við rannsóknir á véla- og tækjabúnaði skipa fram á 10. áratuginn. Á Fiskiþingum á þessum árum var rætt um kunnugleg málefni, m.a. nauðsyn þess að efla haf- og fiskirannsóknir, byggja nýtt rannsóknaskip, auka fullvinnslu afla og mennta fólk til starfa í fiskiðnaði. Deilt var um toglínur, verkefnaleysi síldarbátaflotans eftir hrun síldarinnar svo eitthavð sé talið.
Félagið hélt úti skólaskipi í samstarfi við ráðuneyti og Hafrannsóknastofnun frá 1970. Skipið var notað til kennslu, rannsókna og siglt var með grunnskólabörn út á Faxaflóann allt fram á annan áratug þessarar aldar.
Á áttunda áratugnum voru gerðar viðamiklar breytingar á félaginu en þá voru Fiskifélagsdeildir sameinaðar og þeim fækkað en 12 samtök í sjávarútvegi voru orðin aðildarfélög, hvert með sinn fulltrúa á Fiskiþingi, m.a. LÍÚ, Sjómannasambandið, Vélstjórarfélagið, Farmanna- og fiskimannasambandið, SÍF, SH, Félag skreiðarframleiðanda, tvö félög síldarsaltenda og Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda. Félaginu var skipt í fimm deildir sem allar sinntu ólíkum verkefnum, allt frá söfnun aflaskýrsla, útgáfu, hagspám, birgðaskýrslum, reikningskrifstofu sjávarútvegsins, aflatryggingasjóði og skipatækni. Á þessu áratug beitti Fiskifélagið sér einnig fyrir því að fiskeldi hefðist hér við land og réð til sín sérfræðing á þvi sviði.
Á þessum árum stóðu menn frammi fyrir versnandi ástandi helstu nytjastofna, ekki minnst þorsksins. Á Fiskiþingi 1983 er samþykkt að leggja til við stjórnvöld að veiðum ársins 1984 yrði stjórnað með kvótakerfi. Deilt var um kerfið bæði í aðdraganda þess og eftir að það var innleitt á Fiskiþingum enda aðildarfélög mörg og skoðanir skiptar. Hins vegar var ljóst að grípa þurfti til aðgerða. Fiskifélagið og þing þess höfðu mikil áhrif á stefnu stjórnvalda í þessum málum og fiskveiðistjórnunina sem tekin var upp og er grunnurinn að því kerfi sem við búum við í dag.
Á níunda og sérstaklega tíunda áratugnum tók að fjara undan Fiskifélaginu. Verkefnum þeim sem félagið hafði sinnt var komið fyrir hjá öðrum stofnunum, útgáfu var hætt, Fiskifélagsdeildirnar liðu undir lok og áhrif félagsins á málefni sjávarútvegsins fór þverrandi.Það þótti ekki lengur veraverkefni Fiskiþinga að standa að ályktunum enda félagið ekki álitið lengur samnefnari í hagsmunabaráttu gagnvart stjórnvöldum. Félagið varð að samtökum hagsmunaðila innan sjávarútvegsins og Fiskiþing urðu að málþingum þar sem tekin voru til umfjöllunar ákveðin málefni.
Í lok tíunda áratugarins hætti ríkisvaldið að styrkja Fiskifélagiðen tekjur félagsins höfðu lengst af komið frá stjórnvöldum. Rætt var um að leggja félagið niður en af því varð ekki og var félaginu fundin ný verkefni sem væru sameiginleg sjávarútveginum sem heild. Í upphafi 21. aldarinnar seldi Fiskifélagið húseign sína að Ingólfsstræti. Verkefni á nýrri öld voru fyrst og fremst á sviði umhverfismála, vottunar, menntunar og ímyndar íslenskra sjávarafurða. Félagið hélt árlega samráðsfundi með stjórnvöldum um málefni sjávarútvegsins á alþjóðavettvangi og vann að stofnun íslensks umhverfismerkis og rekjanleikamerkis. Síðustu árin hefur félagið verið sameiginlegur samstarfsvettvangur aðildarfélaganna og starfsemin fyrst og fremst snúist um árlegt samráð við stjórnvöld.
Umræður um framtíð félagsins hófust hjá stjórn 2023 og á aðalfundi félagsins sama ár. Þar var samþykkt að slíta félaginu en þó ekki fyrr en samstaða hefði náðst um eignir félagsins. Á aðalfundi 24. júni síðastliðinn lagði stjórn fram tillögu þar sem lagt var til að félaginu yrði slitið og eignum þess skipt á milli aðildarfélags í samræmi við fjölda aðalfundarfulltrúa. Tillagan var samþykkt og félaginu slitið.
Aðildarfélög að Fiskifélagi Íslands voru; Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag skipstjórnarmanna og Starfsgreinasamband Íslands. Aðildarfélögin hafa öll gefið út yfirlýsingu um ráðstöfun þeirra fjármuna sem þeim hlotnast við slitin.
Hrefna Karlsdóttir
Fyrrverandi formaður Fiskifélags Íslands.
(Heimild: Hjörtur Gíslason og Jón Hjaltason: Undir straumhvörfum. Saga Fiskifélagsins í hundrað ár 1911-2011. Akureyri 2011.)

Fiskifélagið á sér langa og merka sögu sem er samofin sögu íslensks sjávarútvegs á 20. öld. Félagið var stofnað 20. febrúar 1911 með það að markmiðiði að efla fiskveiðar Íslendinga. Félaginu hefur nú verið formlega slitið. Aðildarfélög voru; Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag skipstjórnarmanna og Starfsgreinasamband Íslands. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar hefur um margra ára skeið fyrir stjórnarmaður í Fiskifélaginu fh. Starfsgreinasambands Íslands.

Stjórn Fiskifélagsins er fjölmenn enda kemur hún frá öllum helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Myndin er tekin eftir síðasta aðalfund félagsins á dögunum sem jafnframt var slitafundur.

Áhugasamir fundarmenn hlusta á umræður á fundinum.

Hrefna stjórnarformaður sem er hér lengst til vinstri sleit Fiskifélaginu formlega.

Aðalsteinn Árni var fundarstjóri á fundinum en hann hefur til margra ára verið fenginn til að stjórna aðalfundum Fiskifélagsins.