Vilja skoða sameiningu – gríðarleg aukning á greiðslum úr sjúkrasjóði

Aðalfundur Þingiðnar var haldinn 29. apríl. Fundurinn fór vel fram og var málefnalegur. Umræður urðu um starfsemi félagsins, rekstur og hvort félagið ætti að stefna að sameiningu við önnur stéttarfélög. Eftir umræður var ákveðið að skoða málið frekar án þess að fundurinn tæki beina ákvörðun. Hins vegar kom skýrt fram að fundarmönnum hugnast best að sameinast Framsýn enda félögin unnið einstaklega vel saman að málefnum félagsmanna. Það helsta sem kom fram í skýrslu stjórnar sem formaður, Jónas Kristjánsson reifaði, er eftirfarandi:  

1. Fundir og stjórn félagsins
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi eru samtals 21. Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi og þing á vegum félagsins s.s. á vegum Lsj. Stapa, Lsj. Birtu, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins milli aðalfunda, kjörtímabil þeirra er til 2026: Jónas Kristjánsson formaður, Jónas Hallgrímsson varaformaður og aðrir stjórnarmenn Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Hermann Sigurðsson.

2. Fullgildir félagsmenn
Félagsmenn í Þingiðn voru samtals 101 þann 31. desember 2024, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi fullgildir félagsmenn eru samtals 93.

3. Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2024 námu kr. 18.311.634 en námu kr. 19.141.488 árið á undan, sem er lækkun um 4,3%. Ef tekið er tillit til leiðréttinga sem voru gerðar árið 2023 er hækkun milli ára um 1,8%. Heildartekjur námu kr. 22.545.500 en námu kr. 22.659.666 árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 33.857.501 árið 2024 en voru kr. 23.221.654 árið á undan og hækkuðu því um 45,8% á milli ára. Þetta þýðir að tap var af rekstri fyrir fjármagnsliði. Stærsti einstaki útgjaldaliður félagsins eru bætur og styrkir úr sjúkrasjóði. Árið 2024 voru alls greiddir úr sjúkrasjóði styrkir eða sjúkradagpeningar til félagsmanna kr. 15.308.038, en voru árið á undan kr. 7.754.665. Fjármagnstekjur lækkuðu úr kr. 15.211.667 árið 2023 í kr. 12.131.127 árið 2024 sem gerir um 20,25% lækkun milli ára. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 819.126 en hann var kr. 14.649.678 árið áður. Bókfært verð fastafjármuna hækkaði úr kr. 38.494.295 í kr. 118.677.741 og er þar um að ræða kaup á Hraunholti 28 og eignfærðar endurbætur á skrifstofu. Handbært fé lækkar að sama skapi. Útistandandi iðgjöld standa í 5.250.363 milljónum og hækkuðu um rúma milljón milli ára. Heildareignir í árslok voru kr. 298.350.806 og eigið fé nam kr. 281.026.828, hefur það aukist um 0,3% frá fyrra ári. Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.559.584.

4. Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt Verkalýðsfélagi Þórshafnar hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Stéttarfélögin eru með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið á liðnum árum með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum 1-3 og aðra í Hraunholtinu á Húsavík. Þá eiga Þingiðn og Framsýn saman íbúð í gegnum Hrunabúð sf. að Garðarsbraut 26, efri hæð sem hefur verið í útleigu. Þess má geta að íbúð félagsins í Þorrasölum var nýlega máluð sem og aðrar íbúðir í eigu Framsýnar. Það var virkilega ánægjuleg stund þegar Þingiðn tók í notkun nýja og glæsilega íbúð að Hraunholti 26-28 á Húsavík. Um er að ræða parhús og á Framsýn aðra íbúðina. Íbúðirnar hafa slegið í gegn og verið í leigu í vetur til félagsmanna. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Þá fengu 12 félagsmenn endurgreiðslur á árinu 2024 vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 269.365,-. Árið á undan fengu 15 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 362.940,-. Ekki var boðið upp á sumarferð á vegum stéttarfélaganna 2024. Þá eru stéttarfélögin með samning við Icelandair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn milli landa. Samningurinn felur í sér að Icelandair veitir stéttarfélaginu 10 til 20% afslátt frá fullu verði. Á móti niðurgreiða stéttarfélögin flugmiðana til félagsmanna. Það er, félagsmenn geta verslað gjafabréf í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna sem gefur þeim góð afsláttarkjör upp í fullt fargjald hjá flugfélaginu.

5. Fræðslumál
Á síðasta ári fengu 12 félagsmenn styrki úr fræðslusjóði félagsins til náms/námskeiða samtals kr. 269.365,-.

6. Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 15.308.038,- á árinu 2024. Árið 2023 voru greiddar kr. 7.754.665,- í styrki til félagsmanna. Greiðslur til félagsmanna hækkuðu því verulega milli ára eða um 97,4% sem er ákveðið áhyggjuefni.

7. Kjaramál
Samiðn gekk frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins 7. mars 2024. Þingiðn átti aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Sameiginleg atkvæðagreiðsla aðildarfélaga Samiðnar stóð yfir frá 12.-19. mars 2024. Samningurinn var samþykktir með miklum meirihluta með gildistíma frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Þá kom félagið að sérkjarasamningi við PCC á Bakka, ásamt Framsýn stéttarfélagi. Sá samningur var sömuleiðis samþykktur í atkvæðagreiðslu enda hluti af aðalkjarasamningi félaganna við Samtök atvinnulífsins og því með sama gildistíma, það er til 31. janúar 2028.

8. Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið  í gangi á svæðinu. Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Fullur vilji er til þess að halda áfram úti öflugu vinnustaðaeftirliti í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og helstu eftirlitsaðila í Þingeyjarsýslum. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott varðandi réttindi og kjör félagsmanna. Vitaskuld hafa annað slagið komið upp mál sem krefjast viðbragða, hjá því verður ekki komist.

9. Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stefna að því að bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá 1. maí á Fosshótel Húsavík með sambærilegum hætti og á síðasta ári. Hátíðarhöldin 1. maí 2024 tókust í alla staði mjög vel.

10. Flugsamgöngur Húsavík-Reykjavík
Flugi til Húsavíkur var hætt í mars, en þá lauk ríkisstyrktu flugi sem Nordlandair hefur sinnt síðustu þrjá mánuði. Fulltrúar frá stéttarfélögunum og sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum, frá fyrirtækjum á svæðinu þ.m.t. ferðaþjónustunni, SSNE og Húsavíkurstofu funduðu nýverið með Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og aðstoðarmönnum hans til að reyna að knýja á um áframhaldandi flugsamgöngur. Jafnframt var gerð krafa um að viðhaldsverk á flugbraut og flugstöð á Húsavíkurflugvelli, sem  eru á samgönguáætlun verði unnin sem fyrst, enda mikilvægt að mannvirkjum sem tengjast flugsamgöngum um völlinn fái eðlilegt viðhald. Útlit er fyrir áframhaldandi barning hvað flugmálin varðar. Stéttarfélögin munu vinna áfram að málinu, hugsanlega í samstarfi við önnur sveitarfélög sem eru í sambærilegri stöðu og Norðurþing, Höfn, Vestmannaeyjar og Ísafjörður. Fulltrúar frá þessum sveitarfélögum hittust nýlega til að fara yfir málið en áhugi er meðal þeirra að vinna saman að framgangi áætlunarflugs til þessara staða.

11. Sameining stéttarfélaga
Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri hefur kallað eftir því að stéttarfélögin á Norðurlandi skoði möguleikana á því að sameina félögin innan Alþýðusambands Norðurlands í eitt 18.000 manna félag. Þingiðn hefur þegar hafnað þessari leið.

12. Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra: Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi. Félagið kom að því að halda tveggja daga trúnaðarmannanámskeið í mars 2025, það er með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna. Félagið kom að því að styrkja nokkur góð verkefni s.s. Píludeild Völsungs, Hnoðra tónlistarhátíð, Sólseturskórinn og Mærudagshátíðina á Húsavík.

13. Hrunabúð sf.
Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru flest skrifstofurými í notkun. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26. Árið 2021 fjárfesti Hrunabúð í íbúð á efri hæð Garðarsbrautar 26 fyrir kr. 48 milljónir. Heildarvelta félagsins árið 2024 var kr. 12,9 milljónir samanborið við kr. 10,7 milljóna veltu árið 2023.

14. Samningur við Verkalýðsfélag Þórshafnar
Verkalýðsfélag Þórshafnar hefur undanfarin ár verið með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna varðandi þjónustu við félagsmenn. Samstarf aðila hefur verið með miklum ágætum.    

15. Málþing – konur í nýju landi
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, í samstarfi við Norðurþing og Alþýðusamband Íslands stóðu fyrir opinni málstofu og pallborðsumræðum á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardaginn 8. mars 2025. Samkoman fór fram í Golfskálanum á Húsavík og var fjölsótt en um 60 þátttakendur tóku þátt í málstofunni. Sjónum var beint að framlagi kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags og stöðu þeirra hér á landi. Yfirskrift málstofunnar var „Konur í nýju landi – okkar konur“.  Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar fór fyrir málstofunni sem var öllum til mikils sóma.

16. Leiguhúsnæði fyrir almennt verkafólk
Stéttarfélögin hafa unnið að því að tryggja tekjulágu fólki á leigumarkaði húsnæði á viðráðanlegu verði. Hvað það varðar komu félögin því til leiðar að Bjarg íbúðafélag hóf uppbyggingu á slíku húsnæði á Húsavík en Bjarg er sérsniðið að tekjulágum einstaklingum á vinnumarkaði sem eiga hvað erfiðast með að komast í leiguhúsnæði á almenna húsnæðismarkaðinum vegna tekna. Norðurþing kom einnig að verkefninu enda um að ræða samstarfsverkefni milli Bjargs og viðkomandi sveitarfélags með aðkomu HMS sem kemur að fjármögnun verkefnisins. Um er að ræða sex íbúða raðhús, sem staðsett er við Lyngholt. Alls bárust 44 umsóknir um þessar sex íbúðir. Íbúðirnar voru afhentar í apríl 2025. Virkilega ánægjulegt.

17. Málefni skrifstofunnar
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Framsýn og STH. Þar starfa í dag 6 starfsmenn í 4,8 stöðugildum. Þann 1. maí 2024 lauk samstarfi stéttarfélaganna og Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Við það fluttist starfsmaður frá Skrifstofu stéttarfélaganna yfir til Virk.  Að auki hafa 5 starfsmenn verið í hlutastörfum hjá stéttarfélögunum við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Ráðist var í breytingar á húsnæði stéttarfélaganna. Komið var fyrir nýju loftræstikerfi á skrifstofunni auk þess sem skipt var um þrjár hurðir, það er útihurð við aðalinnganginn og tvær hurðir í anddyri. Þá fékk Sparisjóðurinn sem leigir hluta af húsnæði stéttarfélaganna ásamt Sjóvá leyfi til að gera endurbætur á sínum leiguhluta. Breytingarnar allar tókust afar vel. Þá stendur til að mála húsið að utanverðu í sumar auk þess sem skipta þarf um gluggakarma á norðurhliðinni þar sem þeir eru ónýttir, það er á efri hæðinni. Netárásir eru vaxandi áhætta í daglegum rekstri fyrirtækja og félagasamtaka. Í ljósi þess hefur verið unnið að því á Skrifstofu stéttarfélaganna að gera úrbætur á öryggismálum. Samið var við Advania um að setja upp vöktunarkerfi fyrir tölvupósta og önnur mikilvæg gögn s.s. fundargerðir og kjarasamninga. Eftir að athugasemdir bárust frá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun ríkisins varðandi skráningu fasteigna í húsnæði stéttarfélaganna var ráðinn fagaðili til að koma til móts við kröfur HMS sem skilaði góðu verki. Með nýju skráningunni er eigninni skipt upp í þrjár einingar, sem hver hefur sérstakt götuheiti og númer. Það er Skrifstofa stéttarfélaganna, íbúð stéttarfélaganna og skrifstofuhúsnæðið á efri hæðinni sem er í eigu Hrunabúðar. Eignaskiptasamningurinn er nú í þinglýsingu.

Að lokum þakkaði formaður félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

Deila á