Aðalfundur STH fór vel fram

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur fór fram 29. apríl. Auk venjulegra aðalfundarstarfa var gengið frá kjöri í stjórn félagsins auk þess sem ýmsar tillögur voru samþykktar er varða starfsemi félagsins. Hermína Hreiðarsdóttir var endurkjörin sem formaður félagsins til næstu tveggja ára. Hér má lesa um það helsta sem fram koma á fundinum og snertir starfsemi og rekstur félagsins, það var formaður félagsins sem gerði grein fyrir starfseminni:

1. Fundir
Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 24. maí 2024. Frá þeim tíma hafa verið haldnir sex fundir á vegum félagsins. Landsþing bæjarstarfsmanna fór fram í nóvember 2024, þingið var haldið í Mosfellsbæ. Félagið átti rétt á tveimur fulltrúum. Fanney Hreinsdóttir og Sylvía Ægisdóttir voru fulltrúar félagsins á þinginu. Auk þess hafa stjórnarmenn tekið þátt í fundum, ráðstefnum og þingum á vegum BSRB. Þá var gerðir kjarasamningar við ríkið og sveitarfélögin á árinu 2024 sem BSRB fór fyrir. STH á aðild að samningunum í gegnum bandalagið.

2. Fullgildir félagsmenn
Þess ber að geta að fjöldi virkra félagsmanna STH sem greiddu í félagssjóð í janúar 2024 skv. félagatali í DK voru 73 en voru 72 á sama tíma í fyrra. Félagsmönnum hefur fækkað aðeins milli ára. Samkvæmt lögum BSRB skal tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reyndist í janúar það ár sem halda skal þing BSRB. Til viðbótar þessum fullgildu félagsmönnum bætast við gjaldfrjálsir félagsmenn. Áætlaður fjöldi þeirra er um 10% af greiðandi félögum á hverjum tíma.

3. Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2024 námu kr. 12.304.624,-  en voru kr. 12.298.254,- árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 11.259.269,- og lækkuðu því milli ára úr kr. 16.624.114,-. Fjármunatekjur voru kr. 3.348.824,- samanborið við kr. 2.820.096,- árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 7.202.865,- samanborið við kr. 1.526.591,- tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 89.893.208,- og eigið fé nam kr. 87.748.590,-. Hefur það aukist um 8,94% frá fyrra ári. Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.217.578,-. Gerð verður frekari grein fyrir helstu niðurstöðum úr ársreikningi félagsins undir c-lið þessa liðar, Venjuleg aðalfundarstörf.

4. Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. STH á eina íbúð í Sólheimum og gengur rekstur hennar vel. Auk íbúðarinnar í Sólheimum á félagið eitt orlofshús á Eiðum, líkt og með íbúð félagsins í Sólheimum hefur rekstur orlofshússins gengið vel. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna sér um að halda utan um úthlutun og rekstur á eignunum. Að venju fengu nokkrir félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum.

5. Fræðslumál og heilsurækt
Á síðasta ári voru greiddir samtals kr. 1.180.497,- í námsstyrki til félagsmanna. Þá fengu félagsmenn greiddar kr. 102.000,- í heilsustyrki frá félaginu. Fyrir utan þessa styrki fengu félagsmenn greitt úr Styrktarsjóði BSRB.

6. Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá félagsmönnum hefur almennt verið með miklum ágætum. Ekki er að sjá að sveitarfélögin á svæðinu muni draga úr starfsemi á komandi árum. Því ætti atvinnuástandið að haldast áfram gott.

7. Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu að þessu sinni fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík 1. maí 2024. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki ásamt góðum gestum. Þá var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð. Hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík voru vel sótt og öllum til mikils sóma.

8. Starfsemi félagsins
STH hefur komið að nokkrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra: Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Félagið kom að því að styrkja nokkur áhugaverð verkefni á síðasta starfsári s.s. Hnoðra tónlistarhátíð, Sólseturskórinn, Mærudaga, og Eurovision 2025/myndband frá Húsavík.

9. Trúnaðarmenn
Hlutverk trúnaðarmanna á vinnustað er mjög mikilvægt, bæði fyrir félagsmenn og ekki síst fyrir stjórn stéttarfélagsins og starfsfólk þess. Hlutverk og staða trúnaðarmanna er ákveðin bæði í lögum og í kjarasamningum. STH hefur lagt mikið upp úr því að hafa öfluga trúnaðarmenn á vinnustöðum. Til að efla þekkingu trúnaðarmanna eru reglulega haldin trúnaðarmannanámskeið fyrir trúnaðarmenn stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna, nú síðast í mars 2025.

10. Leiguhúsnæði fyrir almennt verkafólk
Stéttarfélögin hafa unnið að því að tryggja tekjulágu fólki á leigumarkaði húsnæði á viðráðanlegu verði. Hvað það varðar komu félögin því til leiðar að Bjarg íbúðafélag hóf uppbyggingu á slíku húsnæði á Húsavík en Bjarg er sérsniðið að tekjulágum einstaklingum á vinnumarkaði sem eiga hvað erfiðast með að komast í leiguhúsnæði á almenna húsnæðismarkaðinum vegna tekna. Norðurþing kom einnig að verkefninu enda um að ræða samstarfsverkefni milli Bjargs og viðkomandi sveitarfélags með aðkomu HMS sem kemur að fjármögnun verkefnisins. Um er að ræða sex íbúða raðhús, sem staðsett er við Lyngholt. Alls bárust 44 umsóknir um þessar sex íbúðir. Verkefnið tókst í alla staði mjög vel

11. Samningur við Verkalýðsfélag Þórshafnar 
Verkalýðsfélag Þórshafnar hefur undanfarin ár verið með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna varðandi þjónustu við félagsmenn. Samstarf aðila hefur verið með miklum ágætum.    

12. Málþing – konur í nýju landi
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, í samstarfi við Norðurþing og Alþýðusamband Íslands stóðu fyrir opinni málstofu og pallborðsumræðum á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardaginn 8. mars 2025. Samkoman fór fram í Golfskálanum á Húsavík og var fjölsótt en um 60 þátttakendur tóku þátt í málstofunni. Sjónum var beint að framlagi kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags og stöðu þeirra hér á landi. Yfirskrift málstofunnar var „Konur í nýju landi – okkar konur“. Meðal þeirra sem voru með erindi voru Guðrún Margrét Guðmundsdóttir jafnréttisfulltrúi hjá Alþýðusambandi Íslands, Agnieszka Szczodrowska starfsmaður stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, Aneta Potrykus formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar og Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar sem jafnframt fór fyrir skipulagningu málstofunnar fh. stéttarfélaganna. Þá tóku Nele Marie Beitelstein fjölmenningafulltrúi Norðurþings, Aleksandra Leonardsdóttir sérfræðingur ASÍ í fræðslu og inngildingu, Fanný Cloé, íslenskukennari fyrir innflytjendur, Christin Irma Schröder verkefnastjóri hjá PCC og Sylwia Gręda, lögfræðingur og aðstoðarmaður daglegs reksturs hjá Norðursiglingu þátt í pallborðsumræðum. Huld Aðalbjarnardóttir lífsþjálfi hélt utan um málstofuna sem var öllum til mikils sóma.

13. Flugsamgöngur Húsavík-Reykjavík
Stéttarfélögin hafa lengi barist fyrir flugsamgöngum til Húsavíkur eða allt frá því að Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug árið 2012 frá Reykjavík til Húsavíkur. Lengi vel eða þar til flugfélagið hætti að fljúga til Húsavíkur á síðasta ári var samstarf aðila með miklum ágætum enda um verulega kjarabót fyrir félagsmenn að ræða, það er að hafa aðgengi að flugi á góðu verði milli landshluta. Því miður hætti flugfélagið að fljúga norður og kallaði um leið eftir ríkisstyrkjum svo hægt væri að viðhalda flugleiðinni þar sem hún væri ekki sjálfbær. Svo fór að stjórnvöld komu að því að styrkja flugleiðina í þrjá mánuði síðla árs 2024, það er frá því í desember fram í mars 2025. Fulltrúar stéttarfélaganna hafa átt fjölmörg samtöl við þingmenn kjördæmisins, forsvarsmenn Vegagerðarinnar sem og þá ráðherra sem fara fyrir málaflokknum. Þá hafa heimamenn, það er auk stéttarfélaganna, sveitarfélögin, fyrirtæki og HSN í Þingeyjarsýslum myndað með sér baráttuhóp til að berjast fyrir áframhaldandi flugi til Húsavíkur. Höfum í huga að áframhaldandi sjúkraflug um Húsavíkurflugvöll er í hættu leggist áætlunarflug endanlega af þar sem fastlega má reikna með því að fjárframlög til starfsmannamála, viðhalds flugvallarins og húseigna á vellinum verði skorið niður. Það má aldrei gerast. 

14. Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf.

15. Skrifstofa stéttarfélaganna
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Framsýn og Þingiðn. Þar starfa í dag 6 starfsmenn í 4,8 stöðugildum. Þann 1. maí 2024 lauk samstarfi stéttarfélaganna og Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Við það fluttist starfsmaður frá Skrifstofu stéttarfélaganna yfir til Virk.  Að auki hafa 5 starfsmenn verið í hlutastörfum hjá stéttarfélögunum við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Ráðist var í breytingar á húsnæði stéttarfélaganna. Komið var fyrir nýju loftræstikerfi á skrifstofunni auk þess sem skipt var um þrjár hurðir, það er útihurð við aðalinnganginn og tvær hurðir í anddyri. Þá fékk Sparisjóðurinn sem leigir hluta af húsnæði stéttarfélaganna ásamt Sjóvá leyfi til að gera endurbætur á sínum leiguhluta. Breytingarnar allar tókust afar vel. Fyrir liggur að skipta þarf um gluggakarma á norðurhliðinni í sumar þar sem gluggarnir eru ónýttir. Netárásir eru vaxandi áhætta í daglegum rekstri fyrirtækja og félagasamtaka. Í ljósi þess hefur verið unnið að því á Skrifstofu stéttarfélaganna að gera úrbætur á öryggismálum. Samið var við Advania um að setja upp vöktunarkerfi fyrir tölvupósta og önnur mikilvæg gögn s.s. fundargerðir og kjarasamninga. Eftir að athugasemdir bárust frá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun ríkisins varðandi skráningu fasteigna í húsnæði stéttarfélaganna var ráðinn fagaðili til að koma til móts við kröfur HMS sem skilaði góðu verki. Með nýju skráningunni er eigninni skipt upp í þrjár einingar, sem hver hefur sérstakt götuheiti og númer.

16. Fulltrúaráð stéttarfélaganna
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna mynda með sér Fulltrúaráð sem skipað er formönnum þessara félaga. Fulltrúaráðinu er ætlað að fylgjast með sameiginlegri starfsemi félaganna, ekki síst sem viðkemur rekstri skrifstofunnar. Fulltrúaráðið kemur saman til fundar eftir þörfum.

Að lokum þakkaði formaður, félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

Deila á