Guðmundar Steina Jósefsdóttir fyrrverandi formaður Framsýnar-ung flutti ávarp dagsins á hátíðarhöldunum á Húsavík í dag og byrjaði ávarpið með þessum orðum; Góðan daginn og gleðilega hátíð. Það er mér mikill heiður að fá að vera hérna með ykkur í dag.
Þegar 1. maí nálgast fyllist ég alltaf stolti og þakklæti. Ég er stolt af því að búa í þessu merka samfélagi og einstaklega þakklát fyrir dugnað og eljusemi fyrri kynslóðum að berjast fyrir okkar kjörum. Við búum í frábæru samfélagi, samtakamátturinn er einstakur og ef ekki væri fyrir hann værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag. Þó megum við ekki gleyma okkur, það er búið að troða slóðina fyrir okkur en við verðum að halda áfram að fylla í hana.
En til þess að það sé hægt verðum við að hugsa út í nokkra hluti. Við þurfum að vita hvað við viljum og eins hugsa út í hvernig hlutirnir eru og hafa verið. Sagan er nefnilega mikilvæg, bæði saga okkar sem einstaklingar og sem þjóð því hún skilgreinir okkur. Ég var alin upp í sem við köllum ekta „verkamanna fjölskyldu“. Faðir minn vann á vinnuvélum og móðir mín var heimavinnandi. Þegar ég var 9 ára tókst þeim að láta gamlan draum rætast, keyptu jörð og urðu bændur. Það sem að við vorum stór systkinahópurinn, var okkur kennt mjög ungum að allir þyrftu að hjálpast að og skila sínu svo hlutirnir myndu ganga. Það er þegar ég lít til baka lærdómur sem mótaði mig mikið. Samfélagið virkar eins, það þurfa allir að skila sínu til að hlutirnir gangi og ekkert starf er yfir annað hafið, þau eru öll jafn mikilvæg, misleiðinleg, en mikilvæg. Sem betur fer liggur áhugi einstaklinga á misjöfnum stöðum og því ættum við að dást að öðrum fyrir að vinna vinnu sem höfðar ekki til okkar frekar en að líta niður á þau störf.
Við systkinin gengum jafn mikið til verks og fullorðnir og var okkur kennt það ungum að við þyrftum að vinna fyrir því sem skipti okkur máli, það fengist ekkert gefins í þessum heimi og það væri enginn annar að fara að koma okkur þangað sem við vildum vera, aðrir en við sjálf. Við þurfum að vita hvað við viljum og vinna af elju til að ná því takmarki. Ég hugsa oft út í það í dag hvernig foreldrum mínum tókst að koma öllum systkinahópnum upp á einungis einni innkomu. Það var alls ekki auðvelt, það var gert allt til að bjarga sér og hefði þetta aldrei tekist ef ekki væri fyrir samtakamáttinn og útsjónarsemina. Stórfjölskyldan hélt mikið saman og mættu allir með sína styrkleika til að vinna verk sem þurfti að gera. Höfum við systkinin grínast mikið með það á seinustu árum að við þurfum að kasta peningi upp á það hvert okkar ætti að læra að verða bifvélavirki eða rafvirki, við þurfum einnig að fara að yngja upp píparann í fjölskyldunni.
Ég er handviss um það að þetta hefði aldrei verið svona ef ég hefði verið af efnameiri fjölskyldu, þá hefði að sjálfsögðu öll vinna verið keypt af fagmönnum. Í dag er ég mjög þakklát, þetta kenndi okkur útsjónarsemi, samkennd, skilning og gerði okkur einstaklega náin sem fjölskyldu. Við að sjá foreldra mína berjast alltaf í bökkum og þurfa að vinna mikið til að ná endum saman lærði ég að það þarf að vera jafnvægi í lífinu. Það er ekki þess virði að strita endalaust ef maður fær aldrei tækifæri til að stoppa og njóta ávaxtanna. Þess vegna sinnir verkalýðsbarátta einstaklega veigamiklu hlutverki í mínum huga. Hún ver okkar hagsmuni.
Það er hinsvegar ekki hægt að berjast fyrir einhverju sem við vitum ekki hvað er. Þess vegna þurfum við að stoppa og staldra við. Hvað er það sem við viljum? Þessi einfalda spurning getur verið flókin og margþætt. Ég veit hvað ég vil ekki. Ég vil ekki fara til baka þar sem fólk vann baki brotnu til að ná endum saman og hafði engan tíma fyrir áhugamál og lítinn tíma fyrir fjölskyldulífið. Þar sem konur unnu oft á tíðum úti jafnhliða því að sinna öllu sem viðkom heimilislífinu og börnunum. Það eru þó ennþá miklar leifar af þeim hugsunarhætti í samfélaginu og bíð ég spennt eftir þeim degi þegar að það hverfur alveg. Sem dæmi má nefna þá er það vel varðveitt leyndarmál að ég kunni að elda, og geri meira að segja þó ég segi sjálf frá þokkalega góðan mat. Ég barðist fyrir því í mörg ár að sem fæstir vissu þetta, því ef allir vissu yrði það alltaf ég sem endaði í eldhúsinu, af því ég er kona, en ég hef miklu frekar áhuga á því að vera í útiverkunum. Ef við stoppum aðeins við og setjum þetta í samhengi þá er það alveg út í hött að það sé ákveðið eitthvað verk eða hlutverk bara eftir kyni. Við erum öll jöfn og margir karlmenn eru mjög góðir kokkar, til dæmis bróðir minn enda fær hann alltaf að elda þegar hann kemur í heimsókn og því er mér ómögulegt að skilja af hverju í ósköpunum það sé litið á eldamennsku á heimilum sem kvenmannsverk. Þetta er bara lítið dæmi af mörgum. Ég átta mig þó á því af hverju þetta er, svona virkaði samfélagið fyrir sig, því oft á tíðum unnu karlmennirnir fjarri heimilum, komu ekki heim í langan tíma, unnu lengri vinnutíma þar sem þeir voru tekjuhærri og voru því ekki til staðar og lenti þetta þar af leiðandi á konunum. Sem betur fer erum við búin að opna augun fyrir því hversu fáránlegt þetta er og er það fyrsta skrefið í átt að breytingum.
Þá erum við komin að spurningunni hvað er það sem ég vil? Hún er eins og ég sagði áðan risastór og flókin spurning sem ég gæti aldrei svarað að fullu hér, það tæki allan daginn, en ég get nefnt nokkur dæmi. Ég vil geta sinnt vinnunni minni, þjóna tilgangi og skila vel af mér því sem ég þarf að gera. Ég á börn, þar af leiðandi þarf ég hafa einhvern öruggan stað þar sem ég get sett börnin mín á meðan ég mæti til vinnu og geti sinnt vinnunni minni áhyggjulaus. Þar kemur skólakerfið til dæmis inn í, en það þjónar veigamiklu hlutverki í að kenna börnunum okkar. Þar treysti ég á annan hlut í samfélaginu, að hann virki til að ég geti sinnt minni skyldu.
Ég vil geta fengið nægilega há laun til þess að ég hafi efni á því að fara í áunnið frí, til að ég geti notið með fjölskyldunni, sinnt áhugamálum og eins fengið tíma til að hvíla mig og mæta með enn frekari krafti til vinnu þegar fríi líkur. Ég vil geta orðið veik án þess að það hafi áhrif á það að ég missi lífsviðurværi mitt. Allt eru þetta réttindi sem sem við höfum af því að fyrri kynslóðir og verkalýðsbarátta þeirra hefur aflað okkur. Ég vil búa í samfélagi sem kemur vel fram við mig og aðra, samgleðst mér þegar gengur vel og sýnir mér skilning og hjálpar mér að standa upp aftur þegar illa gengur. Ég vil að samfélagið mæti öllum þar sem þeir eru, því öll hafa eitthvað fram á að færa. Ég vil að öll geti lifað mannsæmandi lífi, hvort sem þau eru ungabörn, unglingar sem eru að feta sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum, miðaldra fólkið sem ég er orðin ein af, fólk sem hefur kosið að koma og búa hér á Íslandi, öryrkjar og eldri borgarar. Allt eru þetta jafnir einstaklingar í mínum huga, sem hafa eitthvað fram á að færa og gerir samfélagið okkar ríkara. Ég vil að allir hafi hlutverk og finnist þeir tilheyra. Þetta er eins og ég sagði áður í grófum dráttum sú átt sem ég vona að við sem samfélag förum. Sumt er auðveldara í framkvæmd en annað en einhver þarf alltaf að taka fyrsta skrefið og stundum er bardaginn mislangur og erfiður en þá skiptir máli að muna af hverju við erum að þessu, hvaða niðurstöðu við viljum fá og ekki gefast upp. Verkalýðsbaráttan er eitthvað sem þarf alltaf að vera til staðar, ekkert er nógu gott þannig ekki sé hægt að bæta það og er sífelld þróun í gangi.
Þess vegna finnst mér dagurinn í dag tilvalin fyrir okkur að stoppa aðeins við og íhuga, hvernig hlutirnir hafa verið, hvernig þeir eru í dag og hvernig við viljum hafa þá. Það gleymist oft að gefa sér tíma til að hugsa í amstri hversdagsleikans þar sem við erum oft eins og hamstrar á hamstrahjóli, að reyna að klára alla hluti og sinna skyldum hvers dags fyrir sig.
Takk fyrir mig.