Nú standa yfir fjölmenn hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum á Fosshótel Húsavík. Rétt í þessu var varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir að flytja hátíðarræðu dagsins sem er hér meðfylgjandi. Mögnuð ræða.
Kæru félagar
Árið 2025 er stórt kvennaár bæði hér heima og úti í heimi. Við minnumst mikilvægra tímamóta í jafnréttisbaráttunni og viljum gjarnan spegla okkur í sögunni.
Baráttudag verkalýðsins á Kvennaári helgum við sérstaklega baráttu verkakvennafélaga fyrir bættum kjörum og réttindum, um leið og við minnumst þeirra sem fyrstar fóru fyrir baráttu verkakvenna.
Það hefur farið minna fyrir afrekum kvenna en karla þegar horft er til sögunnar, en konur hafa í gegnum aldirnar staðið upp og breytt sögunni – samtíma sínum og þar að leiðandi sögunni eins og við þekkjum hana, og þá yfirleitt til hins betra. Ákveðnar, sterkar konur, hafa staðið fyrir flestum breytingum á réttindum kvenna og barna ásamt því að sinna mannúðarmálum, í nærumhverfi sínu hvort sem er hér innan lands eða um allan heiminn.
Og þá skulum við víkja að sögunni. Árið 1918 þrengdi kost íslensku þjóðarinnar verulega. Árið hófst á fádæma frosthörkum. Katla gamla gaus, spænska veikin herjaði og fyrri heimsstyrjöldinni lauk eftir fjögurra ára blóðbað. Það var dýrtíð, atvinnuleysi og vöruskortur. En svo ég telji nú ekki eingöngu upp það neikvæða sem gerðist þetta örlagaríka ár, þá er vert að minnast þess að Íslendingar fögnuðu fullveldi þann 1. desember og íslenskur fáni var dreginn að húni sem fullgildur þjóðfáni.
Blómabærinn Húsavík var þá eins og hvert annað þorp á gelgjuskeiði, íbúatalan um 650 manns og afkoma manna síst glæsilegri en annars staðar á landinu á þessum erfiðu tímum. Litla samfélagið var stéttskipt, hér bjuggu tvær aðalstéttir. Það voru „betri borgarar“ sem voru kaupmenn, embættismenn og verslunarþjónar og svo almúgafólk (smollar) sem voru verkamenn og iðnaðarmenn. Betri borgarar voru forystumenn í atvinnu og félagslífi og flestir smollarnir lifðu á því sem landið gaf. Þeir byggðu afkomu sína á sjónum þegar ekki var aðra vinnu að hafa, ýmist á árabátum eða vélbátum sem þá voru að koma til sögunnar. Sumir höfðu kýr til heimilis, nokkrar kindur, jafnvel geitur og hænur. Eitt verkamannafélag var á staðnum og var stofnað árið 1911, Verkamannafélag Húsavíkur.
Konurnar sáu um þessi verk – sem virðast í sögunni hafa unnist af sjálfu sér. Þær ólu upp börnin, þvoðu þvotta, sinntu öldruðum og sjúkum, héldu utan um stórfjölskylduna og sáu um heimilishaldið. Gæfist þeim tími til unnu þær einnig utan heimilis. Hér á Húsavík unnu konur rétt eins og í öðrum sjávarþorpum á Íslandi, gjarnan árstíðabundin störf, oftast við fiskbreiðslu og fiskþvott. Þegar þörf var á, var mikil eftirspurn eftir konum til þess háttar starfa.
Verslun var öll lánsverslun, eða skuldaverslun og peningar voru ekki mikið hafðir um hönd. Útgerðarmaðurinn og kaupmaðurinn var oftast einn og sami maðurinn sem þýddi að almúginn verslaði hjá þeim sömu sem það vann hjá, vinnan og innleggið var skrifað og úttektin úr versluninni var skrifuð. Verulegar erjur milli verkafólks og vinnuveitenda voru varla komnar til sögunnar í litla þorpinu á Húsavík árið 1918, enda lágu málin nokkuð ljóst fyrir. Vinnuveitendur ákváðu hvert kaupið skyldi verða og þar við sat. Fólk lét sér það yfirleitt lynda þó sumir bölvuðu í hljóði.
Það var í áðurnefndu umhverfi sem hugmyndir kviknuðu að stofnun baráttusamtaka fyrir verkakonur hér á Húsavík. Hugmyndin kom frá fátækri verkakonu sem hét Björg Pétursdóttir. Björg var mikil baráttukona, hún var alla tíð harður sóséalisti og hafði til að bera ríka réttlætiskennd. Henni sveið mismunun kynjanna og áttaði sig á gildi þess að verkakonur, rétt eins og karlar tækju höndum saman og bindust samtökum. Björg vissi að áróður gegn samtökum verkafólks var sterkur og að sumar konur myndu óttast að blönduðu þær sér í kjarabaráttu misstu þær hylli góðra manna og fyrirgerðu jafnvel von sinni um himneska vegferð. Það var heldur ekki þannig að allir tækju hugmyndum um stéttabaráttu eða kvenfrelsi fagnandi, hvort heldur sem var í hópi kvenna eða karla og slík hugsun var ennþá fjarri mörgum fátækum verkakonum. Í þeirra huga voru þessi nýju orð ekkert sem hægt var að brauðfæða börnin með, enda hver dagur barátta fyrir tilveru fjölskyldunnar. Björg trúði nágrannakonu sinni fyrir þessum hugleiðingum sínum, eitt leiddi síðan að öðru og úr varð stofnun verkakvennafélagsins Vonar þann 28. apríl. Fyrsti formaður félagsins var Þuríður Björnsdóttir.
Þegar félagið var stofnað höfðu aðeins fjögur önnur Verkakvennafélög verið stofnuð á landinu og ekkert sem sagði til um hvernig slíkt félag skyldi starfa. Og svo að það sé sagt, þá var ástæðan fyrir sérstökum verkalýðsfélögum kvenna sú að þær voru hreint ekki velkomnar inn í félög karla, sem annars vegar óttuðust samkeppni um vinnuna sem oft var af skornum skammti, og hins vegar var það ríkjandi skoðun að konur ættu að vera heima til annast börn og bú. „Konur voru góð guðsgjöf og ágætar til síns brúks“ eins og einn alþingismaður þess tíma lét hafa eftir sér „en ekki til þess færar að sinna störfum og embættum sem „körlum væru sérstaklega ætluð“. Þau orð segja allt sem segja þarf. Konum var almennt ekki ætlað að „stíga út fyrir sitt eigið gólf.
Vonarkonur voru margar fákunnandi þegar kom að félagsstörfum, en það leystu þær með því að kjósa þær konur til helstu trúnaðarstarfa innan félagsins fyrsta kastið, sem jafnframt voru í Kvenfélagi Húsavíkur. Tengingin við kvenfélagið gerði það að verkum að starfsemi verkakvennafélagsins sameinaði aðalmál kvennabaráttunnar, stéttabaráttu, baráttu fyrir menntun kvenna og baráttu fyrir borgaralegum réttindum. Starf félagsins tók því fyrstu árin ósköp einfaldlega mið af þeim veruleika sem konurnar þekktu og bjuggu við, og félagið var allt í senn, verkalýðsfélag, kvenfélag, bindindisfélag og líknarfélag. Þegar lengra leið á og verkakvennafélögum fjölgaði viku „mjúku málin“ fastari skorður komust á starfshætti félagsins og það fann sinn stað í hugmyndafræði og starfi alþýðusamtakanna.
Vonarkonur beittu sér frá upphafi fyrir samvinnu við Verkamannafélagið og þrátt fyrir að í byrjun hafi tíðarandinn verið sá að konur stæðu einar í baráttu sinni við vinnuveitendur, breyttist það með tímanum og gott samstarf komst á meðal verkafólks í þorpinu. Eftir því sem árin liðu þróuðust mál þannig innan Alþýðusambands Íslands að farið var að sameina félög verkakvenna og karla á hverjum stað. Það leiddi að lokum til þess að árið 1964 ruglaði húsvískt verkafólk, konur og karlar saman reytum og gekk í eina sæng.
Fundagerðabækur Vonar veita innsýn í heim sem hjá mörgum var markaður fátækt, sorg og umkomuleysi. Það lætur lesandann ekki ósnortinn og glöggt má skynja þá miklu nærgætni og samhygð sem konurnar sýndu samferðafólki sínu. Konurnar létu sig varða erfiðleika sérhvers sem þurfti aðstoðar við og það var ekki spurt um stétt eða stöðu. Kannski skipti aðstoð þessara kvenna ekki sköpum fyrir þær, en aðstoðin skipti hins vegar miklu máli fyrir þann sem hana þáði sem framrétt hönd á erfiðri stund.
Það liggur mikill fjársjóður í sögu verkakvennanna í Von og af henni getum við lært. Þær nefndu félagið sitt Von, því þær eygðu örlitla vonarglætu um að þær gætu, með samstöðu sinni lagt sitt af mörkum til að byggja upp samfélag, þar sem störf þeirra yrðu metin að verðleikum og börn þeirra ættu sér annað hlutskipti en fjötra fátæktar. Og þeim bar gæfa til að virkja samtakamátt sinn á grundvelli mannúðar og samstöðu í þágu þeirra sem lægstir stóðu í launa- og metorðastiga samfélagsins.
Kæru félagar
Þetta var saga Vonar, en áfram skal haldið. Í ár verða liðin 50 ár frá því að um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar. Einhver stærsti útifundur í íslenskri sögu var haldinn á Lækjartorgi þennan dag og um allt land yfirgáfu konur heimili sem og aðra vinnustaði og komu saman til að styrkja sín bönd. Það myndaðist bandalag kvenna sem voru að ólíku bergi brotnar, höfðu misjafna aðstöðu og menntun, úr öllum starfsgreinum og líklega hefur fátt blásið íslenskum konum eins mikinn byr í brjóst og samstaðan sem birtist þann dag, enda lömuðu þær samfélagið með þessu uppátæki sínu.
Kvennafundirinn á Lækjartorgi var mikill stemmingsfundur og meðal þeirra sem þar töluðu var verkakona sem þekkti kröpp kjör af eigin raun. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir talaði þar röddu kvenna, sem hafði verið kæfð í 1100 ár. „Konan er að vakna“ þrumaði hún yfir mannfjöldann og hún hafði lög að mæla. Konur voru að vakna og átta sig á að ekkert myndi breytast nema þær sjálfar sæktu sinn rétt. „Aðalheiður átti salinn“ eins og sagt er, og varð á þeirri stundu samnefnari þúsunda kvenna sem vildu berjast fyrir frelsi og réttlæti. „Hvað varð um kyndilinn sem lýsti upp verkalýðshreyfinguna fyrr á árum þegar sjálfsagt var að sá sterki lyfti þeim veika“ spurði hún meðal annars? „Hvar eru gömlu hugsjónir okkar? Vonandi liggja þær á borðinu næst þegar verður samið“.
Kvennafrídagurinn vakti heimsathygli. Hann stuðlaði að því að Ísland var fyrsta ríki þar sem kona var kjörin forseti, og hafði mikil áhrif í þá átt að styrkja sjálfstraust kvenna. Og sannarlega eru fyrirmyndir dýrmætar ungu fólki. Að sjá aðra manneskju sem maður getur speglað sig í gera hluti sem mann dreymir sjálfan hvetur fólk að sjálfsögðu áfram. Það get ég sagt með sanni, því þegar kvennahreyfingin hrærði upp í samfélaginu á áttunda áratug síðustu aldar, var ég á mínum mótunarárum og mér hafði alla tíð sviðið það kynjaójafnrétti sem konur í mínu nærumhverfi bjuggu við.
Ísland hefur í mörg ár verið fararbroddi kynjajafnréttis og sá árangur sem við höfum náð í kvennabaráttunni er afrakstur persónulegra fórna sem baráttukonur hafa fært í gegnum tíðina, pólitískrar stefnumótunar, aðgerða og þrotlausar vinnu. Margir karlar hafa einnig lagt sitt að mörkum í þeirri jafnréttisbyltingu sem orðið hefur. Þeir eru þátttakendur í þessum breytingum hvort sem okkur líkar það betur en ver og okkur konum hættir stundum til að gleyma því að þeir eru líka fórnarlömb þess kerfis sem skóp vanlíðan kvenna.
En hvað erum við alltaf að væla? Konur eru eru nú víða í opinberum valdastöðum á Íslandi, konur eru í öllum æðstu embættum landsins og á Alþingi eru hlutföll kynja nánast jöfn. Ísland trónir á toppi þeirra þjóða þar sem jafnrétti og jöfnuður mælist einna mest í heimi. Það hefur vissulega margt áunnist og hagur margra kvennastétta vænkast.
Og er þá ekki takmarkinu náð?
Ég segi nei við þeirri spurningu. Einhverstaðar hefur brostið hlekkur í kvennabaráttunni og þær konur sem neðst sátu árið 1975 sitja þar enn sem fastast. Undanfarin ár hafa reglulega verið birtar opinlega niðurstöður rannsókna sem að varpa ljósi á líðan kvenna á Íslandi eftir stöðu þeirra, búsetu, uppruna og stétt. Þær tölur sýna svart á hvítu að láglaunakonur búa við raunveruleika sem er mjög ólíkur þeim sem flestir aðrir hópar samfélagsins búa við. Þær sinna krefjandi störfum sem snerta okkur öll, börnin okkar, foreldra, ættingja og vini. Þetta eru konurnar sem samfélagið gæti ekki verið án og störf sem myndu setja atvinnulífið á hliðina væri þeim ekki sinnt. Þetta eru huldukonurnar sem rétt eins og kynsystur okkar hafa gert um aldir, bera hita og þunga í mörgum þeim störfum sem eru þrátt fyrir mikilvægi þeirra og nauðsyn, lægst launuð í samfélaginu. Þar eru konur af erlendum uppruna fjölmennar og verst settar. Í þessum fjölmenna hópi eru margar konur sem lifa í mikilli fátækt. Þær neita sér jafnvel um mat svo að börnin þeirra fái að borða, en eru ekki að gráta upp við öxlina á næsta manni, enda hefur alltaf þótt skammarlegt á Íslandi að vera fátækur. Fátækt er andstyggilegt fyrirbæri, fátækt er grimmileg og niðurlægjandi, en á það sameiginlegt með silfurskeiðinni að hún erfist illu heilli.
Við vitum hvar skórinn kreppir í velferðarsamfélaginu og vitum að þetta kerfi hefur kostað blóð, svita og tár hina vinnandi stétta. En undir blaktandi fánum jafnréttis og jöfnuðar ætlum við að reka velferðarkerfið okkar áfram á afsláttarkjörum, á kostnað láglaunakvenna og það þótt að öllum séu ljósar alvarlegar afleiðingar þessa rangláta fyrirkomulags. Á hvers ábyrgð er það?
Jafnrétti snýst ekki um það að allar konur eigi að verða ráðherrar, forstjórar eða framkvæmdastjórar. Það snýst um það að kynin meti hvert annað að eigin verðleikum og öll standi standi jafnfætis hvað varðar þau tækifæri sem bjóðast. Þótt staðan sé verri annarstaðar, þýðir það ekki að við eigum að sætta okkur við þá mismunun sem hér ríkir. Hvorki gagnvart konum, körlum, né öðrum hópum samfélagsins. Jafnrétti er mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur öll og meðan við kjósum að snúa blinda auganu að þeim hópum sem ekki njóta jafnra tækifæra segir sig sjálft að jafnréttisfáninn verður bara dreginn í hálfa stöng.
Góðir félagar. Samfélagið okkar er marglaga og lagskipt. Ef við ætlum okkur á annað borð að byggja upp það réttláta samfélag sem okkur er svo tíðrætt um, þurfum við að berjast fyrir þá sem verst standa, konur jafnt sem karla og allt þar á milli. Og eins og verkakonan Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir benti á forðum, þarf sá sterki að geta lyft þeim veika. Aðeins þannig byggjum við upp réttlátt samfélag jafnréttis, jafnaðar og samkenndar. Og það er jafnframt mikilvægasta kvennabaráttan.
Jafnrétti er ákvörðun?