Á aðalfundi Framsýnar fyrir helgina urðu umræður um stöðu kvenna og þau tímamót að um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því að konur lögðu niður störf og stöðvuðu þannig samfélagið. Ósk Helgadóttir fór almennum orðum um stöðuna og sagði frá viðburðum sem samtök verkafólks hafa staðið fyrir undanfarna mánuði. Hún nefndi sem dæmi kvennaráðstefnu sem haldin var á Akureyri í nóvember á síðasta ári auk þess sem stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, ASÍ og Norðurþing stóðu að málþingi- konur í nýju landi á Húsavík 8. mars sl. Sunna Torfadóttir formaður Framsýnar-ung kvatti sér hljóðs og flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á hugafarsbreytingu og fullkomið jafnrétti kynjanna. Ávarpið má lesa hér að neðan:
Ágætu félagar!
Um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því að konur hér á landi lögðu niður launuð sem ólaunuð störf sín og stöðvuðu þannig samfélagið. Þrátt fyrir þrotlausa baráttu í hálfa öld búa konur enn við misrétti og ofbeldi.
Metþátttaka í Kvennaverkfallinu 24, október 2023, á samkomum víða um land og á stærsta útifundi Íslandssögunnar í Reykjavík, sýndi svo ekki verður um villst að við erum tilbúin til að taka við keflinu frá baráttukonunum sem á undan okkur komu. Talið er að yfir 100.000 konur og kvár hafi lagt niður störf á Íslandi til þess að krefjast breytinga. Hér norðan heiða komu um 300 konur saman á Húsavík í húsnæði stéttarfélaganna og þá söfnuðust konur á Raufarhöfn saman til að sína samstöðu kvenna í verki. Glæsilegir viðburðir þar sem baráttuandin sveif yfir vötnum.
Valdefling, baráttugleði, og skýrt ákall um breytingar einkenndu þessa gríðarlegu samstöðu rétt eins og árið 1975. Samfélag sem rís svo sterkt upp gegn ójafnrétti hefur alla burði til að verða raunveruleg jafnréttisparadís.
Baráttan heldur áfram í átt til jafnréttis þar sem við erum því miður ekki enn komin á endastöð. Ákveðnir hópar eru verst settir, konur af erlendum uppruna, hinsegin konur, konur með fötlun, láglaunakonur og heimilislausar konur. Kynjamisrétti gengur á heilsu og velferð kvenna, en konum hefur fjölgað meðal örorkulífeyrisþega.
Þá er ólíðandi með öllu að atvinnutekjur kvenna séu enn um 21% lægri en karla, það er á árinu 2025. Helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Vinnudagar kvenna af erlendum uppruna eru lengri og óreglulegri en almennt meðal kvenna á Íslandi og laun þeirra lægri. Konur sem starfa við ræstingar, ferðaþjónustu og umönnun barna fá lægstu launin í íslenskum vinnumarkaði. Fjárhagslegt sjálfstæði er forsenda þess að tryggja öryggi og frelsi kvenna og kvára. Stjórnvöld þurfa að standa með konum og kvárum og fara í aðgerðir þegar í stað.
Markmiðið verði að:
- Leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum
- Tryggja að hægt sé að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði
- Klára vinnu við heildstætt virðismatskerfi og endurskoða starfsmat sveitarfélaga.
- Tryggja sambærilegt kerfi fyrir viðbótarlaun.
- Koma á samningaleið sem auðveldar einstaklingum að reisa jafnlaunakröfur.
- Setja reglur um launagagnsæi byggða á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.
Til að fylgja eftir Kvennaverkfallinu hafa fjölmörg samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks tekið höndum saman um að leggja fram kröfur um jafnrétti í verki. Við konur gefum stjórnvöldum frest til 24. október 2025 til að breyta lögum og grípa til aðgerða til að tryggja fullt og endanlegt jafnrétti kynjanna. Biðin er á enda!
Nú tökum við höndum saman enn á ný og fylkjumst bak við kröfurnar. Við vitum sem er að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Sagan sýnir okkur það. Við getum, þorum og viljum!
Takk fyrir