Tekið hús á Leigufluginu ehf / Air Broker Iceland

Formaður Framsýnar hefur undanfarna daga, vikur og mánuði átt samtöl við þingmenn, ráðherra, sveitarstjórnarmenn og flugrekstraraðila um mikilvægi áætlunarflugs milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem  nú liggur niðri. Í gær þáði hann boð Ásgeirs Ö. Þorsteinssonar og Einars Hermanssonar sem eiga og stýra nýju fyrirtæki sem heitir Air broker Iceland og er leigumiðlun með flugvélar og þyrlur. Félagarnir, sem áður störfuðu hjá Flugfélaginu Erni, hafa báðir mikla reynslu af störfum tengdum flugi. Á fundinum í gær kom fram að verkefnin eru margvísleg og eftirspurnin stundum umfram það sem hægt er að sinna með góðu móti. Tekin var umræða um innanlandsflugið, ríkisstyrki á flugleiðum og framtíð áætlunarflugs til flugvalla á Íslandi, s.s. Húsavíkur, Hornafjarðar, Ísafjarðar og Vestmannaeyja sem hefur verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarið. Fundurinn var vinsamlegur og góður í alla staði.

Deila á