Í gærmorgun mátti sjá grunn í Lyngholti 42-52 á Húsavík undir raðhús. Sólarhring síðar er risið 6 íbúða raðhús á grunninum. Um er að ræða raðhús, svokölluð ‘kubbahús’, sem Bjarg íbúðafélag er að reisa á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs hefur sagt í fjölmiðlum að þetta sé í raun fyrsta verkefni félagsins þessarar tegundar, en örugglega ekki það síðasta. Húsin eru smíðuð á Selfossi, af SG húsum. Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna var slegist um þessar sex íbúðir og bíða leigjendur spenntir eftir því að flytja inn í nýjar og glæsilegar íbúðir. Um er að ræða sérbýli með litlum garði, en allar íbúðirnar eru 4ra herbergja. Reiknað er með að íbúðirnar verði tilbúnar í apríl 2025. Framsýn, sem hafði frumkvæði að því að Bjarg kæmi að uppbyggingu á Húsavík, mun hvetja til frekari húsbygginga á vegum Bjargs á Húsavík enda eftirspurnin greinilega mikil eftir óhagnaðardrifnum leiguheimilum. Aðalmarkmið Bjargs er að tryggja fólki húsnæðisöryggi án hagnaðarsjónarmiða. Í þessu kerfi þarf fólk ekki að hafa áhyggjur af því að missa húsnæðið. Íbúar halda húsnæðinu eins lengi og þeir vilja og breytir engu þó að tekjur íbúa hækki þegar líður á.




