Ný stofnun, Náttúruverndarstofnun, hefur tekið við verkefnum sem snúa að náttúruvernd, lífríkis- og veiðistjórnun hjá Umhverfisstofnun og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Stofnunin fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar og eftirliti á ofangreindum sviðum.
Starfsgreinasamband Íslands hefur fram að þessu verið með sameiginlegan stofnanasamning við Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun. Vinna er hafin við að aðlaga samninginn að nýrri stofnun, Náttúruverndarstofnun. Á meðfylgjandi mynd má sjá formann Framsýnar, Aðalstein Árna og Hjördísi formann Afls, starfsgreinafélags undirbúa viðræður við stjórnendur Náttúruverndarstofnunnar. Með þeim á myndinni er Björg Bjarnadóttir framkvæmdastjóri SGS sem heldur utan um verkefnið fh. aðildarfélaga sambandsins sem aðild eiga að samningnum. Hvað Framsýn varðar starfa landverðir á vegum Náttúruverndarstofnunar víða á félagssvæðinu. Þar á meðal í Mývatnssveit og í Ásbyrgi.