Kynningar frá Heidelberg og Carbfix

Forsvarsmenn tveggja fyrirtækja sem hafa áhuga á að festa rætur á Bakka funduðu á dögunum með forsvarsmönnum Framsýnar og Þingiðnar. Þetta voru fyrirtækin Carbfix og Heildelberg. Hvorutveggja góðir og upplýsandi fundir og til fyrirmyndar hjá þessum fyrirtækjum að kynna sínar hugmyndir og starfsemi fyrir stéttarfélögunum enda þau í miklu samstarfi við fyrirtæki hér á svæðinu. Bæði fyrirtækin kynntu starfsemi sína og hugmyndir fyrir forsvarsfólki Norðurþings um svipað leyti.

Hugmyndir Carbfix snúast um að dæla koldíoxíði niður í jörðina þar sem það breytist í grjót með náttúrulegum ferlum. Carbfix hefur keyrt svona starfsemi á Hellisheiði í rúman áratug og gengið vel. Er það álit þeirra að starfsemin gæti hentað vel á Bakka og passi vel inn í hugmyndina um Græna iðngarða.

Starfsemi Heidelberg eru af allt öðrum toga. Hjá þeim stendur til að reisa verksmiðju sem framleiðir malað móberg til útflutnings og íblöndunar við sement. Með þessu móti er kolefnisspor sementsframleiðslu minnkað svo um munar, eða um 20-25%.

Báðar þessar hugmyndir eru á frumstigi í tengslum við Bakka en gætu orðið að veruleika í fyllingu tímans, það er ef vilji stendur til þess hjá hagsmunaaðilum. Þá er alltaf mikilvægt að vinna svona verkefni í sátt og samlyndi við heimamenn. Hvað það varðar er afar mikilvægt að þeir hinir sömu kynni sér málið vel, það er áður en þeir móta sér skoðun. (Meðfylgjandi mynd tengist verkefninu á Húsavík ekki beint)

Deila á
Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir