Kveðjuorð – Helga Gunnarsdóttir

Helga Gunnarsdóttir lést þann 9. febrúar sl. á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Húsavík. Útförin fór fram frá Húsavíkurkirkju í dag kl. 14:00.

Helga var fædd á Húsavík 16. október 1935 og hefði því orðið níræð í haust hefði hún lifað. Helga tók snemma til hendinni líkt og önnur ungmenni í þorpinu við Skjálfanda, sérstaklega fyrir neðan bakkann þar sem ávallt var líf og fjör, enda lífæð þorpsins. Það var alltaf þörf fyrir ungar og duglegar hendur í beitningaskúrunum, í síld og við almenna fiskvinnslu sem síðar átti eftir að verða hennar ævistarf, en hún starfaði lengst af sem fiskvinnslukona hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur. Á unglingsárum stundaði hún nám við Húsmæðraskólann að Laugalandi í Eyjafirði auk þess að fara á vertíð í Sandgerði þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, öðlingsmanninnum, Bjarna Siguróla Jakobssyni, sem flutti síðar með henni til Húsavíkur þar sem þau hófu búskap.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem ungur maður á vinnumarkaði kynntist ég Helgu Gunnars. Við unnum þá bæði hjá Fiskiðjusamlaginu, hún í hraðinu við að snyrta fisk og ég í aðgerðinni við hefðbundin fiskvinnslustörf. Þrátt fyrir að hún væri töluvert eldri en ég náðum við vel saman, enda með svipuð áhugamál og brennandi áhuga á verkalýðsmálum. Eftir að ég var kosinn trúnaðarmaður starfsmanna í aðgerðinni rúmlega tvítugur leitaði ég oft til hennar eftir ráðgjöf, það var alltaf ánægjulegt að leita til Helgu Gunnars. Það var gott fyrir ungan óreyndan trúnaðarmann að leita eftir hennar ráðgjöf, enda var hún afar vel inn í öllu sem laut að verkalýðsmálum. Hún veitti mér góð ráð, jafnvel eftir að hún hætti formlegum störfum í þágu Verkalýðsfélagsins.

Helga var mjög virk í starfi Verkalýðsfélags Húsavíkur á sínum tíma, góður félagi. Hún var í aðalstjórn félagsins frá árinu 1983 til 1990. Á þeim tíma gegndi hún stöðu gjaldkera innan félagsins. Hún steig til hliðar á aðalfundi Verkalýðsfélagsins árið 1991 þegar ákveðin kynslóðaskipti urðu í stjórn félagsins. Helga ásamt þeim Helga Bjarnasyni formanni og Kristjáni Ásgeirssyni varaformanni hættu þá í aðalstjórn félagsins að eigin ósk.  Áður hafði Helga verið í ýmsum ráðum, nefndum og stjórnum, auk þess að sækja fundi og þing á vegum Verkalýðsfélagsins. Hún var m.a. um tíma í trúnaðarráði auk þess að sitja í stjórn sjúkrasjóðs félagsins. Hvað stjórn sjúkrasjóðsins varðar þá hefur alltaf verið lagt upp úr því að hafa traust og gott fólk í þeirri stjórn, enda verið að vinna með mjög viðkvæmar og persónulegar upplýsingar er tengjast félagsmönnum og veikindum þeirra. Helgu var treyst til þessara verka af sínum félögum innan Verkalýðsfélags Húsavíkur.

Helga Gunnarsdóttir var alla tíð mjög virk og sannur verkalýðsfrömuður og var ávallt tilbúin að taka að sér verkefni fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur í nefndum, ráðum og stjórnum. Það var gott fyrir mig að fá að þroskast í starfi sem formaður verkalýðsfélags við hliðina á henni ungur að árum innan verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur án efa hjálpað mér mikið í mínum daglegu störfum að verkalýðsmálum.

Mín kæra, hafðu miklar og kærleiksríkar þakkir fyrir leiðsögnina í gegnum verkalýðsbaráttuna og framlag þitt til Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags sem nýtur mikillar virðingar á landsvísu fyrir störf sín í þágu verkafólks. Það er ekki síst þér að þakka og þeim öðrum sem mörkuðu sporin á sínum tíma. Minning um baráttukonu mun lifa áfram um ókomna tíð. Blessuð sé minning þín.

Aðalsteinn Árni Baldursson
Formaður Framsýnar stéttarfélags

Deila á