Þingmennirnir Jens Garðar Helgason, Vilhjálmur Árnason og Diljá Mist Einarsdóttir gerðu sér ferð til formanns Framsýnar í morgun. Vildu þau fræðast um stöðuna á svæðinu og helstu áherslumál heimamanna varðandi atvinnu- og byggðamál. Þá var einnig farið inn á velferðar-og samgöngumál sem og mikilvægi góðar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Formaður Framsýnar kallaði eftir átaki í viðhaldi á þjóðvegum í Þingeyjarsýslum. Þá væri átsandið á brúnni yfir Skjálfandafljót við Rangá ekki boðlegt. Flugmál voru einnig til umræðu og sagðist Aðalsteinn Árni ekki annað fært en að stjórnvöld kæmu að því að styrkja flug til Húsavíkur til frambúðar. Flug til Húsavíkur legðist af, enn og aftur, í næsta mánuði eftir þriggja mánaða fjárstuðning frá ríkinu sem væri gjörsamlega ólíðandi með öllu. Eftir góðar umræður var Aðalsteini Árna formanni boðið í heimsókn á Alþingi, þannig gæfist honum tækifæri á að fylgja betur eftir áherslum félagsmanna Framsýnar, íbúum í Þingeyjarsýslum til framdráttar. Framsýn hefur í gegnum tíðina lagt mikið upp úr því að eiga gott samstarf við þingmenn á hverjum tíma um málefni er tengjast velferð og uppbyggingu í Þingeyjarsýslum íbúum til heilla. Fundurinn í morgun með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins var verulega góður.
![](https://framsyn.is/wp-content/uploads/2025/02/20250215_112330-scaled.jpg)