Vilji til að breyta aðalfundi deildarinnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í gær fimmtudaginn 9. janúar. Aðalsteinn J. Halldórsson formaður deildarinnar fór yfir störf deildarinnar milli aðalfunda.

Hann sagði skýrslunni vera ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2024. 

Fjöldi félagsmanna:
Varðandi fjölda félagsmanna þá greiddu 444 einstaklingar til deildarinnar á árinu 2024. Um er að ræða töluverða fjölgun milli ára þar sem 334 greiddu til deildarinnar árið 2023.  Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar alls 488.

Kjaramál:
Þann 13. mars 2024 skrifuðu SA og LÍV undir nýjan kjarasamning til loka janúar árið 2028. Í kjölfarið var samningurinn kynntur fyrir félagsmönnum Framsýnar innan deildarinnar. Markmið samningsins er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þá er markmiðið jafnframt að auka kaupmátt launafólks, skapa fyrirsjáanleika í efnahagslífinu, draga úr verðbólguvæntingum og styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Samningurinn var samþykktur í sameiginlegri atkvæðagreiðslu aðildarfélaga LÍV með 79,50% atkvæða. Nei sögðu 18,06% og 2,44% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru samtals 44.457 félagsmenn aðildarfélaga LÍV. Atkvæði greiddu 8.038 eða 18,08%. Atkvæðagreiðsla um samningin stóð yfir dagana 18. til 21. mars. Þátttaka félagsmanna Framsýnar var með ágætum sé tekið mið af þátttöku félagsmanna annarra stéttarfélaga innan LÍV þar sem við náðum 29,57% kosningaþátttöku, sem þýðir þriðja sætið. Vonandi verður friður á vinnumarkaði á samningstímanum öllum til hagsbóta.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð starfsárið 2024: Aðalsteinn J. Halldórsson formaður, Elva Héðinsdóttir varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Varaformaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þá á varaformaður einnig sæti í stjórn Framsýnar-ung. Deildin hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins auk þess sem formaður deildarinnar starfar á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Verslun- og þjónusta:
Á síðasta aðalfundi deildarinnar sem var haldinn í janúar 2024 kom fram megn óánægja með Nettóbúðina á Húsavík, en heimamenn hafa lengi kallað eftir bættri verslunarþjónustu fyrirtækisins, það er bæði á Húsavík og í Mývatnssveit. Óskað var eftir því að  forsvarsmenn Framsýnar myndu beita sér í málinu. Hvað það varðar hefur formaður félagsins fundað með forstjóra Samkaupa í tvígang auk þess að eiga samskipti við forsvarsmenn Samkaupa og Norðurþings um málið í gegnum síma og eins með tölvupóstum, nú síðast í desember.  Formaður deildarinnar hefur einnig verið þátttakandi í þessum viðræðum. Forsvarsmenn Samkaupa hafa verið hvattir til þess að hefja framkvæmdir við nýja Nettó verslun Samkaupa á Húsavík sem fyrst auk þess að huga að því að bæta verslunina í Mývatnssveit. Þá hefur jafnframt verið skorað á Norðurþing að klára skipulagsmálin svo þau standi ekki í vegi fyrir uppbyggingu á verslunarhúsnæði á Húsavík. Bæði Samkaup og Norðurþing hafa haldið því fram að unnið sé að framgangi málsins sem vonandi gengur eftir enda afar mikilvægt að hér rísi öflugur stórmarkaður á allra næstu árum. Það er full ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af verslun og þjónustu á svæðinu. Bakaríið á Húsavík lokaði í september og þá hefur komið fram í máli verslunareigenda að staðan sé ekki alltof góð á félagssvæðinu. Vonandi tekst að snúa þessari þróun við. Það getum við gert m.a. með því að versla sem mest í heimabyggð. Vissulega var það gleðilegt þegar Icewear opnaði glæsilega verslun á Húsavík á árinu 2024 sem styrkir án efa verslunarrekstur á Húsavík.

Þing og ráðstefnur:
Fulltrúar deildarinnar hafa sótt fundi á vegum LÍV, þing og ráðstefnur sem haldnar hafa verið frá síðasta aðalfundi sem varða hagsmuni verslunar- og skrifstofufólks.

Fræðslumál:
Fálagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum kjarasamningsbundnum fræðslusjóði, það er Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Þá hafa þeir einnig aðkomu að Fræðslusjóði Framsýnar sem niðurgreiðir einnig nám til félagsmanna, séu þeir í kostnaðarsömu námi og hafi fullnýtt sinn rétt hjá Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Árið 2024 voru veittir 48 námsstyrkir samtals kr. 2.859.640, það er 36 styrkir til kvenna og 12 styrkir til karla.

Kaup á orlofsíbúð:
Framsýn tók í notkun eina orlofsíbúð að Hraunholti 26 á Húsavík haustið 2024. Um er að ræða 4 herbergja íbúð á einni hæð í tvíbýli. Íbúðin sjálf er 105,7 m2 að stærð auk þess sem um 12 m2 garðskúr fylgir íbúðinni. Kaupverð er kr. 69.350.000,-. Með þessum kaupum vill félagið auka enn frekar þjónustu við almenna félagsmenn. Frá því að íbúðin var tekin í notkun í haust hefur verið mjög góð nýting á íbúðinni. Til skoðunar er að nota íbúðina í skiptum, hluta úr ári, fyrir önnur orlofshús í eigu annarra stéttarfélaga víða um land. Slík skipti opna á nýja og áhugaverða möguleika fyrir félagsmenn, þannig fengju þér aðgengi að orlofshúsum s.s. á Vestfjörðum, Vesturlandi og á Suðurlandinu í staðin fyrir orlofsíbúðirnar á Húsavík, sérstaklega yfir sumartímann.  

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Þá eru fimm starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2024, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hátíðarhöldin 1. maí gengu afar vel og þá tók félagið í notkun nýja orlofsíbúð í Hraunholtinu á Húsavík eins og fram hefur komið í skýrslunni. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum. Sérstaklega ber að þakka Karli Hreiðarssyni fyrir samstarfið en hann gefur ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir félagið enda ekki lengur félagsmaður.

Eftir að formaður hafði farið yfir skýrslu stjórnar urðu umræður um málefni félagsmanna innan deildarinnar. Aðalsteinn J. sagði að til viðbótar mæti geta þess að hann hefði verið boðið að vera gestur á tveimur fundum með Félagi eldri borgara á starfsárinu. Umræðuefnið hefði verið lífeyrismál annars vegar og réttindi þeirra sem hætta á vinnumarkaði hins vegar. Fundirnir hefðu verið mjög áhugaverðir og gefandi. Þá sagði Aðalsteinn Árni frá því að til stæði að selja orlofsíbúð félagsins í Asparfelli og kaupa þess í stað eina íbúð til viðbótar í Þorrasölum. Kauptilboð væri komið í íbúðina í Asparfelli upp á 46, 1 milljón.  

Eftir góðar umræður var komið að stjórnarkjöri. Fyrirliggjandi tillaga um stjórn deildarinnar, starfsárið 2025, var samþykkt samhljóða:

Aðalsteinn J. Halldórsson formaður
Elva Héðinsdóttir varaformaður
Harpa Stefánsdóttir ritari
Anna Brynjarsdóttir meðstjórnandi
Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir meðstjórnandi

Í lok fundar var borin upp tillaga varðandi form aðalfunda deildarinnar sem var samþykkt samhljóða og felst í því að leggja niður formlega aðalfundi, þess í stað verði gert grein fyrir starfsemi deildarinnar á aðalfundi Framsýnar á hverju ári. Tillagan sem var samþykkt er eftirfarandi:

„Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags beinir þeim tilmælum til stjórnar og trúnaðarráðs félagsins að skoðað verði hvort tilefni sé til þess að breyta formi aðalfunda frá því sem nú er samkvæmt starfsreglum deildarinnar. Það er að formlegir aðalfundir falli niður. Þess í stað verði gert grein fyrir starfsemi og kosið í stjórn deildarinnar á aðalfundi Framsýnar ár hvert.“

Aðalsteinn J. sem hér er í heimsókn hjá PCC á Bakka var endurskjörinn sem formaður deildarinnar á aðalfundinum sem fram fór í gær. (Myndir með þessari frétt eru úr myndasafni Framsýnar)
Deila á