Fjörugur aðalfundur sjómanna

Þann 27. desember var aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar haldinn í fundarsal stéttarfélaganna. Fundurinn var að venju líflegur og málefnalegur. Formaður deildarinnar fór yfir skýrslu stjórnar og þá var kosið í stjórn deildarinnar fyrir starfsárið 2025. Kosningu hlutu: Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur.

Á fundinum urðu jafnframt umræður um kvótamál, kjaramál sjómanna, strandveiðikerfið og síðustu Alþingiskosningar. Þá var tekin fyrir tillaga sem var til afgreiðslu á fundinum um að breyta formi aðalfunda deildarinnar, það er að hætta með sérstaka aðalfundi. Þess í stað verði gert grein fyrir starfsemi deildarinnar á reglulegum aðalfundi Framsýnar sem haldinn er í apríl/maí ár hvert. Tillagan var ekki tekin til afgreiðslu þar sem fundarmenn vildu halda í núverandi fyrirkomulag, það er að funda sérstaklega um sín mál.

Hér að neðan má lesa það helsta sem fram kom í skýrslu stjórnar sem formaður deildarinnar, Jakob G. Hjaltalín, gerði grein fyrir:

Ágætu sjómenn! Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2025.  Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2024, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna. 

Fjöldi sjómanna í deildinni:
Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.

Kjaramál:
Þann 6. febrúar 2024 skrifuðu SFS og Sjómannasabandið undir kjarasamning en samningar sjómanna höfðu þá verið lausir í nokkur ár. Gildistími samningsins er 10 ár en með uppsagnarákvæði eftir 5 ár og öðru eftir 7 ár. Með samningnum eru lífeyrisréttindi sjómanna 15,5% eins og annarra landsmanna, veikindaréttur er styrktur og taka ákvæði veikindaréttar nú í fyrsta sinn fullt tillit til mismunandi launakerfa sjómanna – s.s. mismunandi  skiptimannakerfa.  Er þá sjómönnum í skiptimannakerfi með 50% hlut á móti makker,  tryggð óbreytt laun í allt að 4 mánuði í veikinda-og slysatilfellum.  Í flestum tilfellum hingað til hafa menn fengið 50% laun í tvo mánuði og síðan kauptryggingu. Sjómenn fá eftirleiðis desemberuppbót eins og aðrir launþegar.  Við undirritun samningsins fengu sjómenn eingreiðslu að upphæð 400.000 kr. og er það „fyrirframgreidd desemberuppbót“ næstu fjögurra ára því desemberuppbót verður fyrst greidd 2028 og svo eftirleiðis. Á kjörskrá um kjarasamninginn voru 1.104 sjómenn innan aðildarfélaga SSÍ. Atkvæði greiddu 592 eða 54% þeirra sem voru á kjörskrá.  Af þeim sem kusu sögðu 367 já eða 62%, 217 sögðu nei eða 37% og auðir og ógildir seðlar voru 8 eða 1%. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 62,84% já og 37,16% sögðu nei. Samningurinn var því samþykktur, sem þýðir að vonandi verður friður á vinnumarkaði hvað sjómenn varðar næstu árin.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar kláraði viðræður við Samtök atvinnulífsins 26. mars 2024 með undirskrift kjarasamnings fyrir starfsmenn hvalaskoðunarbáta. Um er að ræða langtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við aðalstjórn félagsins. Formaður deildarinnar hefur verið virkur í starfi Sjómannasambandsins á árinu og tekið þátt í fundum á vegum sambandsins.

Formannafundur SSÍ:
Sjómannasamband Íslands stóð fyrir formannafundi á Hótel Stykkishólmi í byrjun nóvember, það er frá 1. til 2. nóvember. Jakob Gunnar Hjaltalín og Börkur Kjartansson voru fulltrúar deildarinnar á fundinum. Aðal málefni fundarins voru kjaramál, skýrsla um meðallaun sjómanna og skipulagsmál.

Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu 13 félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 1.003.134,- í námsstyrki. Um er að ræða verulega hækkun á styrkjum til félagsmanna milli ára en árið 2023 voru greiddar út kr. 194.173,- í styrki vegna starfsmenntunar.

Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru fimm starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2024, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hátíðarhöldin 1. maí gengu afar vel og þá tók félagið í notkun nýja orlofsíbúð í Hraunholtinu á Húsavík. Glæsileg íbúð sem þegar er komin í útleigu. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.

Deila á