Stjórn Framsýnar samþykkti í dag að senda frá sér ályktun um nýstofnað gervistéttarfélag, „Virðingu.“ Ályktunin er svohljóðandi:
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar tekur heilshugar undir ályktun Alþýðusambands Íslands er viðkemur „Virðingu” sem stofnað hefur verið sem stéttarfélag án þess að uppfylla grundvallarskilyrði sem um slík félög gilda. Framsýn skorar á starfsfólk í veitingageiranum að halda sig fjarri félaginu og taka ekki þátt í starfsemi sem miðar að því einu að skerða kjör og grafa undan réttindum sem áunnist hafa með áratuga baráttu.
Gervistéttarfélagið „Virðing” fellur undir þá skilgreiningu sem notuð er um svonefnd „ gul stéttarfélög- teikara”. Þar er átt við félög sem atvinnurekendur eiga frumkvæði að stofna og stýra og gera þannig í reynd kjarasamninga við sjálfa sig enda í það minnsta tveir stjórnarmenn „Virðingar” sem koma beint að rekstri veitingastaða sem eigendur eða stjórnarmenn.
Framsýn beinir þeim tilmælum til allra heiðvirðra atvinnurekenda að hafna afdráttarlaust markmiðum og aðferðarfræði veitingamanna á vettvangi SVEIT og „Virðingar” sem grafa undan réttindum launafólks til þess eins að skapa sjálfum sér betri samkeppnisaðstöðu gagnvart þeim sem löglega standa að rekstri fyrirtækja sinna.
Framsýn vekur athygli á að kjarasamningur „Virðingar” við SVEIT felur í sér augljósan ásetning um að skerða verulega kjör og réttindi starfsfólks í veitingageiranum. Það á við um lengingu dagvinnutíma, lækkun vaktaálags, niðurfærslu orlofsréttinda, skertan veikindarétt og fleira. Að auki uppfyllir „Virðing” ekki ýmsar lögbundnar skyldur sínar gagnvart félagsmönnum m.a. er varðar rekstur sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs sem skiptir verkafólki verulega miklu máli.
Framsýn kallar eftir skilyrðislausri samstöðu með launafólki í veitingageiranum. Félagið lýsir yfir stuðningi við réttindabaráttu þess og við gerð raunverulegra kjarasamninga í stað skipulegrar viðleitni til að níðast á láglaunafólki, ekki síst innflytjendum og ungmennum. Árásum sem þessum verður mætt af mikilli hörku um leið og Framsýn skorar á SVEIT að gefa upp hvaða veitingastaðir hafa boðað að taka upp kjarasamning „Van-Virðingar“ svo almennir borgarar geti sniðgengið slíka staði.