Vegagerðin með verðkönnun á flugi til Húsavíkur

Forsvarsmenn Framsýnar hafa undanfarið verið í sambandi við Vegagerðina varðandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Vitað er að Vegagerðin bauð flugið út í mars 2024, það er til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Eitt tilboð barst í flugleiðina til Húsavíkur sem var ekki tekið. Tilboði Mýflugs í flugið til Vestmannaeyja var hins vegar tekið.

Framsýn fékk það staðfest í dag að Vegagerðin hefði sent út síðasta föstudag, 22. nóvember 2024, verðkönnun fyrir flug til Húsavíkur á tímabilinu 16. desember 2024 til 15. mars 2025.

Frestur flugrekenda til að senda inn verðtilboð er til kl. 12:00 fimmtudaginn 28. nóvember 2024. Óskað hefur verið eftir tilboði í flug með farþega og vörur á flugleiðinni Reykjavík – Húsavík – Reykjavík,  fjórar flugferðir fram og til baka á viku.

Deila á