Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta

Kvennaráðstefna ASÍ var haldin á Akureyri 14. og15. nóvember undir yfirskriftinni: Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta. Ráðstefnan í ár var tvíþætt, þar sem annarsvegar var unnið að hefðbundinni dagskrá, en hún markaði einnig  upphaf Kvennaárs 2025, sem ASÍ hyggst taka þátt í út í af fullum krafti,  í samstarfi við  36 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Fyrir hönd Framsýnar sátu Ósk Helgadóttir og Agnieszka Szczodrowska ráðstefnuna, en með þeim í för var  Nele Maria Beitelstein fjölmenningafulltrúi Norðurþings. Var ráðstefnan afar vel heppnuð að þeirra sögn, þótt veðurfarið torveldaði  samgöngur og ráðstefnugestir yrðu færri en í upphafi var áætlað. Þær stöllur stóðu fyrir málstofu á ráðstefnunni, og var yfirskrift hennar: Samfélagið okkar – konur og fjölmenning. Var þar vísað til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa síðustu áratugi, á íbúasamsetningu samfélaga á félagssvæði stéttarfélaganna, sem nær frá Vaðlaheiði í vestri til Raufarhafnar í austri, upplifun þeirra sem koma erlendis frá af dvölinni hér  og hvernig við getum gert fólki sem kemur erlendis frá, betur kleift að aðlagast samfélaginu.

Með þessari frétt látum við fylgja með ræðu varaformanns Framsýnar sem hún flutti á ráðstefnunni. Ósk Helgadóttir var ráðstefnustjóri auk þess að standa að málstofu með Nele og Agnieszku um „Samfélagið okkar – konur og fjölmenningu.“  

Komið þið sælar kæru konur.

Það er mér mikill heiður að fá að standa hér fyrir stafni og mér finnst einstaklega ánægjulegt að sjá ykkur saman komnar hér, konur úr öllum stéttum, alls staðar að. Konur sem, þora, geta og vilja.

Kvennaráðstefnan í ár er tvíþætt. Annarsvegar vinnum við að hefðbundinni dagskrá, sem þegar hefur verið kynnt rækilega fyrir ykkur, en ráðstefnan í ár markar einnig upphaf Kvennaárs 2025, sem ASÍ hyggst taka þátt í út í ystu æsar, í samstarfi við  36 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. En auðvitað  er einnig markmiðiðið með Kvennaráðstefnunni eins og endranær, að virkja samtakamátt ASÍ-kvenna til að styðja og hvetja konur til áhrifa í hreyfingunni, ásamt því að fræðast, brýna verkalýðshugsjónina og hafa gaman saman.

Og þá hefst lesturinn:

Íslenskar konur tóku sér frí frá störfum til að minna á mikilvægi vinnuframlags síns þann 24. október 1975 og lömuðu með því samfélagið. Það voru verkakonur, verslunarkonur, húsmæður, konur úr öllum stéttum og flokkum alls staðar af á landinu, sem gengu þar í takt og vildu vekja athygli á launamisrétti, á vanmati á störfum kvenna, á skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Þær vildu breyta þeirri samfélagsgerð sem ríkt hafði um aldir, sem var byggð á hugmyndafræði gamla bændasamfélagsins, með konuna sem þjónandi ambátt. 

Vissulega hafa skrefin okkar verið fram á við. Við státum til dæmis af því að á Íslandi sé mesta jafnrétti kynja í veröldinni. En það er ekki nóg og þótt staðan sé verri annarstaðar, þýðir það ekki að við eigum að sætta okkur við þá mismunun sem hér ríkir. Hvorki á grundvelli kyns né annars. Réttur okkar til sömu launa og framlag okkar til samfélagsins er óháð því hvers kyns við erum. Eða ætti að minnsta kosti að vera það. 

Jafnrétti kynja á vinnumarkaði var helsta baráttumál íslenskra kvenna árið 1975, og lögð var áhersla á að vinna þyrfti bug á vanmati á störfum kvenna, launamisrétti og aðgerðarleysi í dagvistunarmálum. Þessi baráttumál eru því miður enn helstu baráttumál okkar. 

 Kynbundinn munur á atvinnutekjum kynja er vitnisburður um það vanmat, því konur voru árið 2023 með 21% lægri atvinnutekjur en karlar. Aðgerðir eins og innleiðing á starfsmati hjá sveitarfélögum og kröfur um jafnlaunavottun hafa dregið úr launamun á undangengnum árum, en þau tæki eru hins vegar ekki fullnægjandi til þess að leiðrétta launamun sem stafar af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar. Að atvinnutekjur kvenna séu lægri en karla má að talsverðum hluta rekja til ólaunaðrar umönnunarábyrgðar sem hvílir á herðum kvenna, en umönnunarábyrgð hér á landi er með því hæsta í Evrópu.

 Alþingi Íslendinga samþykkti  árið 1961 lög um að sömu laun skyldi veita fyrir jafn verðmæt störf. Í lögunum fólst að launajöfnuður ætti að ríkja á Íslandi frá og með árinu 1967. Það hefur ekki tekist, eða hvað?

Stærsta skrefið í áttina að því að útrýma launamun kynjanna er að leiðrétta skakkt verðmætamat mat kvennastarfa, en rannsóknir sýna að kerfisbundið vanmat á svonefndum kvennastörfum leiðir til lægri launa. Þannig er það ekki bara hér á landi, heldur um allan heim og er megin ástæðan fyrir kynbundnum launamun. 

Við höfum byggt upp velferðarkerfið okkar á vanmetnum störfum sem áður þótti sjálfsagt að konur ynnu launalaust. Það eru að mestum hluta konur sem starfa við umönnun barna, sjúkra, fatlaðs og aldraðs fólks og launin þeirra eru eins og allir vita, ekkert sérstaklega til að hrópa húrra fyrir. Ætti ekki öllu heilvita fólki að vera ljós þau verðmæti, sem fólgin eru í þessum störfum ? Og við getum jafnframt spurt hvort að þau störf sem verða til á einkamarkaði, yrðu í raun til án góðra menntastofnanna, án sterkra innviða og öflugrar heilbrigðisþjónustu? Þessu getum við breytt ef áhugi er fyrir hendi.

Það hefur verið látið viðgangast að  atvinnurekendur, og þar með taldir opinberir aðilar, hafi veitt sjálfum sér afslátt við launasetningu ómissandi kvennastétta. Útvistun starfa við ræstingar er nærtækt dæmi um það og með þeirri framkvæmd er láglaunafólk þvingað til að sætta sig við enn verri kjör. Þetta er fólkið sem hangir á horriminni í fyllstu merkingu þess orðs, oftast konur með ótímabundna samninga, með stuttum uppsagnarfresti. Það er ekki bara dapurleg, heldur svipljót samfélagsmynd að fyrirtæki og stofnanir sem sinna börnum og öldruðum skuli telja þessa leið vænlegasta til að ná fram sparnaði í rekstri. Konur sem starfa við ræstingar og umönnun barna fá lægstu launin í íslensku samfélagi og vinnudagar kvenna af erlendum uppruna, sem margar hverjar vinna þessi störf eru lengri og óreglulegri en almennt meðal kvenna á Íslandi. 

Dagvistunarmál voru eitt af stóru málunum sem konur beittu sér fyrir á Kvennafrídaginn 1975. Um það leyti var uppbygging  leikskólakerfis á Íslandi að hefjast og hafði þá tvíþætt markmið – að veita börnum bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði og að tryggja báðum foreldrum möguleika til þátttöku á vinnumarkaði. Dagvistunarúrræði eru mikilvægt jafnréttistól og allar breytingar á þeim ber því að skoða sérstaklega vel með tilliti til mismunandi áhrifa á kynin. 

Nýverið hafa nokkur stór sveitarfélög ákveðið að skerða eða nota neikvæða hvata til að stytta dvalartíma barna í leikskólum. Nýjar gjaldskrár fela í sér gjaldfrjálsa sex klukkustunda leikskólavist barns, en á móti hækkar gjald þeirra foreldra sem þurfa á lengri vist barna að halda. Samhliða gjaldskrárbreytingum hefur þjónusta verið skert með fjölgun svokallaðra skráningadaga. Með þessum breytingum eru sveitarfélögin að sögn, annars vegar að bregðast við ófremdarástandi í leikskólum sveitarfélaganna, þar sem mannekla og erfið starfsskilyrði hafa torveldað faglegt leikskólastarf, en jafnframt eru tillögurnar hugsaðar til að auka velferð barna með meiri samveru með foreldrum. 

Breytingarnar endurspegla með engu móti stöðu foreldra á vinnumarkaði, en yfir 90% barna eru í leikskóla meira en sex klukkustundir á dag.Þetta er hrein þjónustuskerðing sem kemur verst niður á konum sem tilheyra hópum sem eru í viðkvæmri og/eða jaðarsettri stöðu í samfélaginu, svo sem vegna uppruna, eru í láglaunastörfum eða búa við krefjandi félagslegar aðstæður. Þetta þýðir einfaldlega að  hluti kvenna minnkar við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins og umönnun fjölskyldumeðlima, en 30 prósent kvenna á íslenskum vinnumarkaði eru í hlutastörfum á móti 12 prósent karla. Langt hlé frá störfum eða lækkað starfshlutfall leiðir ekki aðeins af sér launaskerðingu, heldur hefur veruleg áhrif á tækifæri kvenna til framþróunar á vinnumarkaði og bitnar á lífeyrisréttindum þeirra í framtíðinni.

Það er á  ábyrgð sveitarfélaganna og stjórnvalda að tryggja fjármögnun leikskólakerfisins og viðunandi aðbúnað starfsfólks, sem að langmestu leyti eru konur. Getur verið að orsökin fyrir því að illa gengur að manna leikskólanna, hvort heldur það eru leikskólakennarar, eða almennt starfsfólk, séu vinnuaðstæður og launakjör þessara starfsstétta ? 

Þótt konur hafi sótt fram og kvennabaráttu vaxið fiskur um hrygg á síðustu áratugum er kynjakerfið okkar djúpstætt og endingardrjúgt. Kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi er ljótur blettur á menningu/ómenningu okkar. Það sýnir sig enn þann dag í dag hvernig valdastaða karla, peningar og úrelt gildi karlmennskunnar gefa þeim brenglaða mynd af því sem þeir telja sig eiga skilið og rétt á að fá samkvæmt stöðu sinni, að líkami kvenna (hinnar þjónandi ambátta) sé leikvöllur karla. 

Rannsóknir hafa verið gerðar á umfangi slíkra mála á vinnumarkaði og eru niðurstöðurnar sláandi. Tæplega þriðjungur kvenkyns svarenda svaraði því til að þær hafi orðið fyrir áreitni í vinnunni, sbr. Vísindarannsókn Háskóla Íslands um áfallasögu kvenna.

 ASÍ hóf fyrir nokkrum árum vinnu við að bæta móttöku þolenda kynferðislegrar áreitni/ofbeldi í vinnu og vinnutengdu umhverfi. Það þróaðist yfir í samstarf heildarsamtaka launafólks og Virk, og er Fræðslan  afrakstur þess samstarfs. Hún er í raun viðbragð við #MeToo, því eftir þá sprengingu varð öllum ljóst að það þyrfti að gera enn betur í málaflokknum.

Skipulag Fræðslunnar er í stuttu máli með þeim hætti að starfsfólk stéttarfélaga verður  þjálfað í að taka á móti þolendum kynferðisafbrota, út frá svokallaðri þolendamiðaðri nálgun, með áherslu á réttindi þeirra. Í kjölfarið geta þolendur sótt sálrænan stuðning hjá VIRK. Þolanda er trúað, hann ræður för og ekkert er gert nema með hans samþykki. Þessi aðferð er notuð í samskiptum við þá aðila sem eiga erfiða reynslu að baki og hefur verið brotið á. 

Það er gríðarlega mikilvægt að reyna að fækka tilfellum af kynferðislegrar áreitni og ofbeldi og jafn mikilvægt að þolendum sé mætt að skilningi og að þeir finni að þeir ráði för. 

Fórnarlömb kynferðisofbeldis bera oftast harm sinn í hljóði og veruleiki þeirra er ósanngjarn og ruddalegur. Ein slík frásögn getur valdið hamfarabylgju fjölmiðlaumfjöllunar, þar sem sá sem fyrir ofbeldinu varð fær þau skilaboð frá samfélaginu, beint eða óbeint að hann geti sjálfum sér um kennt ? Afleiðingar kynferðisofbeldis geta sannarlega haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt. Við þurfum að opna augun fyrir vandamálinu í stað þess að grafa það í sandinn. Höfnum því að ofbeldismenning sé sjálfsögð og eðlileg! 

Þegar íslenskar konur gengu út af heimilum sínum, skólum og vinnustöðum og kröfðust einum rómi jafnréttis og breytinga, þann 24.október 1975, heyrði það allur heimurinn. Þær þorðu, þær gátu, þær vildu. Sagt er að daginn þann hafi verið lagður hornsteinn að kvennasamstöðu þvert á pólítískar línur. Við eigum þessum konum mikið að þakka og það er mikilvægt að afrek þeirra gleymist ekki.  Tæpum fimmtíu árum síðar ströglum við enn og berjumst fyrir jafnrétti, sem ætti að vera lýðum ljóst að snýst um lýðræði og mannréttindi. Við höfnum því að vera álitnar vara – eitthvað. Við erum manneskjur og krefjumst þess hver einstaklingur geti þroskað og nýtt hæfileika sína án heftandi hugmynda um hlutverk kynja. Gamla ambáttin er dauð. 

Kæru systur. Við höfum verk að vinna.

Takk fyrir mig.

Deila á