Aðildarfélögum Alþýðusambands Norðurlands hefur borist bréf frá formanni Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni. Þar er þeirri hugmynd varpað fram hvort félögin séu tilbúin í viðræður um að sameinast í eitt öflugt deildskipt stéttarfélag á Norðurlandi. Undir AN falla m.a. stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar. Í dag eru um 18.000 félagsmenn innan aðildarfélaga AN, það er allt frá Blönduósi að Þórshöfn á Langanesi. Fjölmennasta félagið er Eining-Iðja á Akureyri.
Hugmyndin um frekari sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi var til umræðu á stjórnarfundi Framsýnar í byrjun vikunnar. Eftir ágætar umræður um stöðu og framtíðarskipulag stéttarfélaga var ákveðið að boða til fundar eftir áramótin um hvert félagsmenn telja rétt að stefna hvað sameiningu stéttarfélaga varðar. Það er hvort núverandi fyrirkomulag sé það besta en fyrir liggur að Framsýn er eitt af öflugustu stéttarfélögum landsins með um 3.000 félagsmenn eða hvort horfa beri til þess að sameina stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum í eitt félag eða á Norðurlandi.