Fólki misboðið yfir gjaldskrárhækkunum OH

Dæmi eru um að viðskiptavinir Orkuveitu Húsavíkur, ekki síst fjölskyldufólk og fólk í viðkvæmri stöðu, hafi sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og krafist þess að Framsýn geri athugasemdir við boðaðar hækkanir á gjaldskrám orkuveitunnar um áramótin. Fólki er greinilega misboðið. Á sama tíma og samið var um hófsamar launahækkanir upp á 3,5% sem koma eiga til framkvæmda um næstu áramót telja forsvarsmenn OH eðlilegt að hækka gjaldskrár fyrirtækisins um 5% til 7,6%. Með bréfi til OH í morgun eru gerðar alvarlegar athugasemdir við boðaðar hækkanir um leið og skorað er á veituna að draga þær til baka.

Orkuveita Húsavíkur ohf.
v/Ketilsbraut
640 Húsavík

Húsavík 1. nóvember 2024

Varðar óhóflegar hækkanir OH
Samkvæmt fundargerð stjórnar Orkuveitu Húsavíkur frá 29. október 2024 kemur fram að meirihluti stjórnar leggur til verulegar hækkanir á gjaldskrám orkuveitunnar milli ára, þrátt fyrir að fyrirtækið standi afar vel um þessar mundir. Talað er um hóflegar hækkanir, sem eru samt sem áður, umtalsvert hærri en boðaðar launahækkanir á almenna vinnumarkaðinum um næstu áramót.

„Í ljósi sterkrar stöðu Orkuveitu Húsavíkur hefur stjórn ákveðið að stilla gjaldskráhækkun í hóf miðað við þróun vísitölu. Meirihluti stjórnar samþykkir að hækka gjaldskrá um 5%.“

Þá er jafnframt tekið fram í fundargerð stjórnar OH:

 „Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir kalt vatn og fráveitu fylgi hækkun fasteignagjalda í Norðurþingi og hækki þar með um 7,6% á árinu 2025.“ 

Boðaðar hækkanir OH á gjaldskrám eru langt frá því að vera í takt við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og yfirlýsingar stjórnvalda/sveitarfélaga sem fylgdu síðustu kjarasamningum sem undirritaðir voru 7. mars 2024 og tengist m.a. sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Þar segir:

„Til að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði munu ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna að aðgerðum sem styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.“

Hvað viðkemur hækkunum á gjaldskrám er tekið fram í yfirlýsingu stjórnvalda/sveitarfélaga:

• Til að stuðla að verðstöðugleika munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. 

• Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.

Til fróðleiks fyrir stjórnendur OH, þá hækka laun almennt um 3,5% um næstu áramót hjá megin þorra launafólks. Ljóst er að boðar gjaldskrárbreytingar OH munu koma afar illa við viðskiptavini orkuveitunnar, ekki síst barnafólk sem nær ekki að dekka þennan kostnaðarauka með launahækkunum 1. janúar 2025.

Viðbrögðin frá viðskiptavinum OH hafa ekki látið á sér standa enda Framsýn borist ábendingar frá reiðum viðskiptavinum orkuveitunnar sem skorað hafa á félagið að vekja athygli á þessum óskiljanlegu hækkunum og krefjast þess að gjaldskrárbreytingarnar verði endurskoðaðar til lækkunar.

Þá virðist sem bókun Byggðaráðs Norðurþings um gjaldskrárbreytingar frá 24. október 2024 hafi algjörlega farið fram hjá stjórn OH sem velur að sniðganga hana.

Bókunin er eftirfarandi:

„Fyrir byggðarráði liggur erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar minnt er á að sveitarfélögin virði samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Byggðarráð þakkar erindið og telur þær tillögur að gjaldskrám sem nú eru til umræðu vera til samræmis við samkomulag sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum.“

Í ljósi mjög góðrar stöðu Orkuveitu Húsavíkur og yfirlýsinga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem lofa hófsemi í gjaldskrárbreytingum sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu er hér með skorað á stjórn OH að endurskoða þessar óhóflegu og reyndar óskiljanlegu hækkanir á gjaldskrám sem koma eiga til framkvæmda í byrjun árs 2025. Fyrir liggur að hækkanirnar, sem eru langt umfram almennar launahækkanir, munu ekki síst koma einstæðum foreldrum, barnafólki  og fólki í viðkvæmri stöðu afar illa.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson

Afrit:
Starfsgreinasamband Íslands
Sveitarstjóri Norðurþings

Deila á