Búa sig undir Kvennaráðstefnu ASÍ 2024

Árleg Kvennaráðstefna ASÍ verður haldin dagana 14. – 15. nóvember nk. á Hótel KEA á Akureyri. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta 

Ráðstefnan er opin félagslega kjörnum fulltrúum stéttarfélaganna og starfskonum hreyfingarinnar.

Markmið Kvennaráðstefnu í ár, eins og endranær, er að virkja samtakamátt ASÍ-kvenna til að styðja og hvetja konur til áhrifa í hreyfingunni, ásamt því að fræðast, brýna verkalýðshugsjónina og hafa gaman saman. Einnig að setja málefni er lúta að velferð, öryggi og réttindum launakvenna rækilega á dagskrá. Helstu jafnréttisáherslur frá 45. þingi eru að leiðrétta skuli vanmat á kvennastörfum, taka skuli enn betur á móti þolendum kynferðislegrar áreitni og ofbeldi í vinnu og vinnutengdu umhverfi og að beina þurfi sjónum að stöðu foreldra og  þrýsta á aðgerðir sem draga úr umönnunarbilinu sem myndast hefur milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þessar sömu áherslur verða til grundvallar á ráðstefnunni. Fyrirkomulag ráðstefnunnar verður með þeim hætti að sérhverju félagi býðst að halda utan um 45 mínútna málstofu um málefni sem á því brennur og er því dagskrá ráðstefnunnar í höndum þátttakenda. Fulltrúar Framsýnar á ráðstefnunni verða Ósk Helgadóttir, Agnieszka Szczodrowska og Nele Marie Beitelstein. Á meðfylgjandi mynd eru þær samankomnar til að undirbúa sig fyrir ráðstefnuna.  

Deila á