Á dögunum sendi Framsýn erindi á Norðurþing varðandi fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrám sveitarfélagsins og fyrirtækja í þeirra eigu. Var sveitarfélagið hvatt til að sína hófsemi og virða samkomulag aðila vinnumarkaðarins, þar á meðal sveitarfélaganna, um hækkanir á gjaldskrám.
Byggðaráð Norðurþings tók erindið fyrir á fundi 24. október og gerði eftirfarandi bókun:
„Fyrir byggðarráði liggur erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar minnt er á að sveitarfélögin virði samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Byggðarráð þakkar erindið og telur þær tillögur að gjaldskrám sem nú eru til umræðu vera til samræmis við samkomulag sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum.“
Til fróðleiks má geta þess að þetta er tiltekið í yfirlýsingu stjórnvalda:
Gjaldskrárhækkanir ríkisins og sveitarfélaga
• Til að stuðla að verðstöðugleika munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025.
• Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.
Sjá nánar: https://www.sgs.is/media/2051/yfirlysing-stjornvalda-vegna-kjarasamninga.pdf