Fræðslusjóðurinn Landsmennt hefur ráðið Solveigu Ólöfu Magnúsdóttur til starfa hjá sjóðnum. Hún tók við starfinu 1. október 2024.
Solveig hefur viðtæka reynslu af menntamálum og hefur starfað sem kennari frá árinu 1993, það er á Siglufirði og í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Þar hefur hún lengst af verið deildarstjóri miðstigs með kennslu.
Þegar Solveig bjó á Siglufirði kom hún m.a. að því að halda utan um komu flóttamanna til Siglufjarðar sem verkefnastjóri. Auk þess starfaði hún á sínum yngri árum við almenn störf á bæjarskrifstofu Siglufjarðar, blaðamennsku, verslunarstörf, heimilisþrif, fiskvinnslu og við símsvörun á leigubílastöð.
Solveig hefur því víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og góða tengingu við landsbyggðina sem kemur til með að gagnast henni vel á nýjum starfsvettvangi.
Samhliða því að vera í krefjandi störfum hefur Solveig verið virk í félagsmálum og starfað m.a. fyrir sitt stéttarfélag. Hún var um tíma trúnaðarmaður og formaður Skólastjórafélags Reykjaness, auk þess að sitja í fræðslunefnd félagsins.
Stjórn Landsmenntar býður Solveigu Ólöfu velkomna til starfa og væntir mikils af hennar störfum í þágu Landsmenntar og þeirra fræðslusjóða sem eru með þjónustusamning við sjóðinn, Ríkismennt, Sveitamennt og Sjómennt.
Solveig hefur fengið netfangið solveig@landsmennt.is.
Frekari upplýsingar um ráðninguna gefur, Aðalsteinn Árni Baldursson, stjórnarformaður Landsmenntar.
Reykjavík 2. október 2024
Stjórn Landsmenntar