Formaður Framsýnar í umboði stjórnar félagsins hefur undanfarið gengið milli ráðamanna til að kanna vilja þeirra til að beita sér fyrir því að áætlunarflug hefjist aftur til Húsavíkur og verði ríkisstyrkt með sambærilegum hætti og er í dag til nokkurra áfangastaða á Íslandi. Í gær átti hann fund með innviðaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur auk starfsmanna úr ráðuneytinu. Með á fundinum var sveitarstjóri Norðurþings, Katrín Sigurjónsdóttir. Lögðu þau bæði áherslu á aðkomu stjórnvalda að áætlunarflugi til Húsavíkur. Ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins tóku erindinu vel og eru tilbúin að skoða málið frekar með hlutaðeigandi aðilum innan stjórnkerfisins. Á næstu dögum mun formaður Framsýnar einnig setja sig í samband við þingmenn kjördæmisins og formann Fjárlaganefndar þingsins með von um stuðning við verkefnið. Nánar um það síðar.