Framsýn óskaði nýlega eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska vegna sameiningar fyrirtækisins við KS. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Stjórnendur KN urðu við ákalli Framsýnar um fund og funduðu með formanni félagssins í gær. Þar skiptust menn á skoðunum um sameininguna og framtíðaráform fyrirtækisins. Ekki var annað að heyra en að starfstöð fyrirtækisins á Húsavík stæði sterk við sameininguna.