Krefjast fundar með stjórnendum KN þegar í stað

Framsýn óskaði í gærkvöldi eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska þegar í stað. Þess er vænst fundurinn geti farið fram í vikunni. Fram hefur komið í fjölmiðlum að hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, hafa samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Hafa þeir snúið sér til félagsins enda hafa þeir töluverðar áhyggjur af stöðunni og sínu starfsöryggi. Þá er það ámælisvert að starfsmenn skuli fyrst frétta af kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á fyrirtækinu í fjölmiðlum. Til skoðunar er einnig að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Kaupfélags Skagfirðinga enda um að ræða mikið hagmunamál fyrir félagsmenn Framsýnar, bændur  og samfélagið allt í Þingeyjarsýslum.

Deila á