Framsýn stéttarfélag mun halda áfram að berjast fyrir flugsamgöngum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Því miður hafa samtöl við þingmenn kjördæmisins skilað litlum árangri, reyndar virðast þeir vera gjörsamlega áhugalausir. Vegagerðin hefur þó hlustað og nú stendur til að bjóða út flugleiðina Reykjavík – Húsavík – Reykjavík eftir því sem best er vitað í þrjá mánuði á ári í þrjú ár. Það er yfir vetrarmánuðina, des-jan-feb. Vegagerðin hefur gefið út að skila þurfi inn tilboðum rafrænt í þessa flugleið fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 2. júlí 2024 og að útboðið verði auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Framsýn hefur þegar sett sig í samband við Innviðaráðuneytið og óskað eftir fundi með ráðherra um málið með það að markmiði að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Jafnframt hefur Framsýn verið í góðu sambandi við forsvarsmenn Norðurþings um aðkomu þeirra að málinu. Þeir hafa tekið því mjög vel og stefna að sameiginlegum fundi um málið með ráðherra.